Það var mikið ályktað á þingi Alþýðusambands Norðurlands um síðustu helgi. Tæplega hundrað fulltrúar frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu þingið, þar af fimmtán frá þingeyskum stéttarfélögum. Sjá ályktanir:
Ályktun um atvinnumál
32. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum af miklu og viðvarandi atvinnuleysi. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar eru ríflega 12.000 manns án atvinnu. Mikill meirihluti þeirra hefur verið það í meira en 6 mánuði. Þetta er alvarleg staða, sem ekki verður unað við.
Þingið krefst þess að ríkisstjórnin láti verkin tala, tryggi að bankakerfið veiti heimilum og fyrirtækjum eðlilega fyrirgreiðslu og komi þannig í veg fyrir óþarfa gjaldþrot, og skapi skilyrði fyrir fjárfestingum í atvinnulífinu.
Í síðustu kjarasamningum einsettu verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld sér að stuðla að stórauknum fjárfestingum til þess að leggja grunn að auknum hagvexti og aukinni atvinnu. Markmiðið var að auka árlegar fjárfestingar í hagkerfinu úr 200 milljörðum í 350 milljarða á samningstímanum. Mikilvægt er að stjórnvöld standi heilshugar að baki þessum markmiðum og leggi fram áætlanir um hvernig þau hyggjast vinna að þeim. Einnig verða stjórnvöld að nýta þau tækifæri sem eru til fjárfestinga á þeirra vegum jafnvel þó fjármögnun verði óhefðbundin. Þá er mikilvægt að átakið „allir vinna“, sem skilað hefur aukinni atvinnu, verði framlengt.
Þingið bendir á, að á Norðurlandi eru fjölmargir raunhæfir fjárfestingarkostir, sem þegar þarf að hrinda í framkvæmd. Í Þingeyjarsýslum eru virkjunarkostir, fyrir orkufrekan iðnað. Bakki er álitlegur fyrir slíkan iðnað og er mikilvægt að þar hefjist uppbygging sem allra fyrst.
Þingið fagnar auknum áhuga fjárfesta á að byggja upp í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Einnig vill þingið nota tækifærið og þakka ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélögum fyrir ötult starf að uppbyggingu á svæðinu og vonar að framhald verði þar á. Þingið hvetur atvinnuþróunarfélög á Norðurlandi að vinna áfram af krafti að því að ná inn fleiri öflugum fyrirtækjum á svæðið. Einnig er afar mikilvægt að stuðla að aukinni ferðaþjónustu á Norðurlandi með beinu flugi til Akureyrar allt árið um kring. Því er nauðsynlegt að stækka flugstöðina á Akureyri, sem nú þegar er orðin of lítil.
Þingið lýsir ánægju sinni með að hafin sé vinna við Vaðlaheiðargöng, sem verður mikil samgöngubót fyrir Norðurland, eins og raunin varð með Héðinsfjarðargöngum. Góðar samgöngur eru forsenda fyrir blómlegri byggð á Norðurlandi og vill þingið beina því til Alþingis að ný Ólafsfjarðargöng verði nú þegar sett á vegaáætlun.
Samþykkt samhljóða.
Ályktun um sjávarútvegsmál
32. þing Alþýðusambands Norðurlands tekur undir umsagnir samtaka launafólks á Íslandi um frumvarp Sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þá hvetur þingið til þess að unnið verði nýtt frumvarp byggt á grundvelli niðurstöðu sáttanefndar.
Samþykkt samhljóða.
Ályktun um heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi
32. þing Alþýðusambands Norðurlands mótmælir harðlega þeirri aðför að heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi sem fyrirhuguð er, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012. Þessar tillögur lýsa mikilli vanþekkingu og skilningsleysi ríkisvaldsins á starfsemi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.
Það er algjörlega óþolandi að ráðist sé á grunnstoðir byggðarlaganna með þessum hætti. Því er ljóst að ef fyrirhugaðar aðgerðir ná fram að ganga mun það leiða til uppsagna starfsfólks og fólksfækkunar, auk þess að þrengja verulega að búsetuskilyrðum byggðarlaganna til frambúðar.
Starfsfólk og skjólstæðingar heilbrigðisstofnana á Norðurlandi hafa þegar tekið á sig verulegar skerðingar og aukið vinnuálag undanfarin misseri og mega ekki við meiru án þess að skerða þá þjónustu sem notendur stofnananna telja lífsnauðsynlegar og sjálfsagðar í sínu byggðarlagi.
32. þing Alþýðusambands Norðurlands gerir þá kröfu til þingmanna Norðurlands að þeir beiti sér af alefli fyrir endurskoðun á fjárheimildum til heilbrigðisstofnananna á Norðurlandi, því þetta er ekki rétta leiðin til þess að efla byggðirnar eða bæta lífskjör þeirra sem búa úti á landi.
Samþykkt samhljóða.
Ályktun um þyrlukaup
32. þing Alþýðusambands Norðurlands hefur þungar áhyggjur af núverandi þyrlueign Landhelgisgæslunnar. Það er ólíðandi að ekki séu til fleiri björgunarþyrlur til að sinna leit og björgun, sjúkraflutningum og öðrum verkefnum til sjós og lands. Þingið krefst þess að nú þegar verði hafist handa við að kaupa tvær stórar björgunarþyrlur til viðbótar núverandi flota.
Samþykkt samhljóða.
Ályktun um kjaramál
Stutt er síðan gengið var frá samningum á almennum vinnumarkaði, sem tryggja áttu almenna kaupmáttaraukningu og sérstaka hækkun lægstu launa. Samhliða því ákváðu verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og ríkisvaldið að gera átak í efnahags- og atvinnumálum.
Nú eru blikur á lofti. Stutt er í endurskoðun kjarasamninga og samkvæmt nýútkomnu fjárlagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir að ellilífeyrir, örorkubætur og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við lægstu laun, eins og lofað var í tengslum við gerð kjarasamninganna.
Þá hefur orðið dráttur á því að ríkisstjórnin leggi fram fjárfestingar- og efnahagsáætlanir þar sem leiðin að endurreisn í atvinnu- og efnahagsmálum er vörðuð. Mikilvægt er að stjórnin bretti upp ermarnar og komi þessum málum í réttan farveg.
32. þing AN krefst þess að ríkisvaldið standi við gefin loforð, annars gætu samningarnir verið í uppnámi. AN bendir á að aldrei hefur verið mikilvægara en nú, á tímum niðurskurðar, þrenginga og glundroða, að auka traust og tiltrú.
Það gera menn með því að standa við gefin fyrirheit.
Samþykkt samhljóða.