Hvetja til víðtækari verðlagseftirlits

Eitt af hlutverkum  Alþýðusambands Íslands er að fylgjast með verðlagi í verslunum landsins. Í því sambandi gerir verðlagseftirlit ASÍ reglulega verðkannanir á vöru og þjónustu, sérstaklega í stórmörkuðum sem skilað hefur góðum árangri enda þarft að veita verslununum og öðrum þjónustuaðilum gott aðhald.  Á síðasta stjórnar og trúnaðarmannaráðsfundi Framsýnar voru verðlagsmál til umræðu. Fram komu athugsemdir við verðlagseftirlit ASÍ er varðar ákveðna þætti.  Verðlagseftirlitið virðist að mestu leyti miðast  við stórmarkaði á höfuðborgarsvæðinu og verslanir þeim tengdum á landsbyggðinni sem eru í flestum tilvikum í stærstu byggðakjörnunum.  Hins vegar vantar algjörlega að verðlag sé kannað í smærri verslunum sem eru víða um land. Þar er vöruverð í flestum tilvikum mun óhagstæðara fyrir neytendur en í stórmörkuðunum og því umtalsvert dýrara fyrir fjölskyldur að versla inn, en á þeim stöðum þar sem stórmarkaðir eru í boði. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að verðsamanburður milli stórmarkaða og verslana í hinum dreifðu byggðum verði skoðaður. Það er t.d. munurinn á verðlagi í Bónus í Reykjavík og verslunum á Raufarhöfn, Vík í Mýrdal, Bakkafirði og Þingeyri svo einhver byggðalög séu tekin sem dæmi. Framsýn hefur komið þessum athugsemdum á framfæri við verðlagseftirlit ASÍ með von um að ábendingarnar verði teknar til greina.

Deila á