Námskeið fyrir fólk með skerta vinnufærni eða öryrkja

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Helstu verkefni Virk eru að veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum starfsendurhæfingarþjónustu og stuðning til að draga úr líkum á því að einstaklingar með heilsubrest detti af vinnumarkaði og styðja þá sem eru utan vinnumarkaðar til að komast þangað aftur. Virk er einnig ætlað að styðja framboð af starfsendurhæfingarúrræðum.

Ráðgjafar Virk – starfsendurhæfingarsjóðs eiga nú virka og árangursríkra samvinnu við einstaklinga sem eru á vinnumarkaði eða hafa áhuga að fara aftur á hann. Í þessu sambandi hefur verið góð samvinna við  stéttarfélög, lífeyrissjóði, Tryggingastofnun ríkisins, heilsugæslur, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustu og aðra starfsendurhæfingaraðila á svæðinu.

Í haust verður stigið nýtt skref í þjónustu Virk á Norðurlandi, þegar boðið verður námskeið fyrir þann hóp sem dottið hefur út af vinnumarkaði vegna heilsubrests (þá sem eru á örorkulífeyri/endurhæfingarlífeyri eða í ferli í þá átt).

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að skapa létt og skemmtilegt andrúmsloft, kynna mögulega starfendurhæfingu og virknihvetjandi þjónustu á svæðinu ásamt leiðum til jákvæðs og árangurríks lífsstíls. Enn fremur verða leiðir til úrvinnslu sálrænna áfalla kynntar ásamt sálfsstyrkingu og leiðum til endurkomu á vinnumarkað.

Um er að ræða 10 klst. námskeið (2 klst. á viku, í 5 vikur). Námskeiðið er við allra hæfi og mun fyrsta námskeiðið verða haldið á Akureyri  í húsnæði Einingar-iðju og hefst 22. september 2011, kl. 14:00. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Í framhaldinu er stefnt að samskonar námskeiðum á Húsavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og víðar ef eftirspurn verður.  Leiðbeinendur á námskeiðunum eru m.a. sérfræðingar Starfsendurhæfingar Norðurlands ásamt ráðgjöfum Virk-starfsendurhæfingarsjóðs.

Undirritaðar veita góðfúslega allar frekari upplýsingar um námskeiðin. Skráning á námskeiðin er þegar hafin hjá ráðgjöfum Virk á Norðurlandi.

Allar nánari upplýsingar veitir Ágúst Sigurður Óskarsson ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs, sími 464-6608 & 464-6600, netfang virk@framsyn.is.

Deila á