Fulltrúar frá embætti Ríkisskattstjóra og eftirlitsmenn með vinnustaðaskilríkjum hafa undanfarna daga heimsótt vinnustaði í Þingeyjarsýslum til að kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Einn þeirra var Snæbjörn Sigurðarson, skrifstofustjóri stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, sem jafnframt er eftirlitsfulltrúi með notkun vinnustaðaskírteina í Þingeyjarsýslum.
Heimsóknirnar eru hluti af átaki Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og embættis sem ætlað er að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli. Átakið ber yfirskriftina „Leggur þú þitt af mörkum”. Þar er skírskotað til þess að bæði atvinnurekendur og launafólk hafi víðtækar skyldur bæði til starfsgreina sinna og samfélagsins í heild.
Í verkefninu er athyglinni beint sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á launatengdum gjöldum og brot og kjarasamningum sé skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.
Markmið verkefnisins er að stuðla að betri tekjuskráningu, tryggja að starfsmenn séu skráðir á launaskrá og að farið sé að lögum og reglum. Um leið er hvatt til þess að opinber gjöld skili sér á réttum tíma ásamt lögboðnum og samningsbundnum framlögum til lífeyrissjóða og gjöldum til stéttarfélaga.