Framsýn tók í dag á móti gömlum togarajöxlum sem komu til Húsavíkur í tilefni af Sail Húsavík. Togarajaxlarnir sem koma víða að voru með árshátíð í Sjallanum á Akureyri í gær og ætluðu svo að njóta þess að vera á Húsavík í dag. Um 100 sjómenn ásamt mökum komu í kaffihlaðborðið. Margar góðar sögur voru sagðar af sjónum í dag og frá einu borðinu mátti heyra, munið þið hvað kallinn var drullu syfjaður í brúnni?? Þá voru einnig nokkrar magnaðar sögur sagðar úr landlegum, ekki síst frá Húsavík. Hér koma nokkra myndir frá heimsókninni.
Aðalsteinn, veistu að Júlíus sýslumaður lét opna pósthúsið þegar við komum á togaranum Norðlendingi til Húsavíkur úr fyrstu veiðiferðinni á laugardegi svo við næðum út víninu okkar sem við höfðum pantað úr ríkinu í Reykjavík. Það var gaman af því segir Magnús Lórenzson sem var á togaranum sem var m.a. í eigu Húsvíkinga og var gerður út frá árinu 1955 fram undir 1960.
Formaður Framsýnar og formaður Sjómannadeildar félagsins buðu gestina velkomna. Gestirnir tóku síðan við og þökkuðu kærlega fyrir sig.
Skipamyndir frá Hafþóri Hreiðarssyni voru til sýnis meðan á veislunni stóð.