Á stjórnar og trúnaðarmannaráðsfundinum í gær hjá Framsýn voru málefni Starfsgreinasambands Íslands m.a. til umræðu. Tekið var fyrir erindi frá Starfsháttanefnd Starfsgreinasambandsins. Þar eru aðildarfélög sambandsins beðin um að gera grein fyrir hugmyndum þeirra um framtíð og skipulag SGS. Beðið er um að erindinu verði svarað fyrir 1. september n.k.
Á fundinum urðu miklar umræður um stöðu og framtíð Starfsgreinasambandsins sem verið hefur lamað vegna deilna innan sambandsins. Sambandið er því ekki að sinna því hlutverki sem því er ætlað að gera samkvæmt lögum þess. Þá hefur verið mikill ólga á skrifstofu sambandsins sem varð til þess að starfsmenn sambandsins hættu störfum auk formanns sambandsins Kristjáns Gunnarssonar sem sagði af sér formennsku eftir fjölmiðlaumræðu um afskipti hans að Sparisjóði Keflavíkur.
Aðrar uppá komur hafa einnig veikt sambandið. Formenn“ stóru“ félaganna hafa t.d. reglulega komið fram með hótanir um að þeirra félög séu á leiðinni út úr sambandinu. Þá er þekkt þegar formanni Framsýnar, sem þá var sviðstjóri Matvælasviðsins, var bolað í burtu sem sviðstjóri af óskiljanlegum ástæðum. Væntanlega þó vegna öfundar þar sem fyrir hefur legið að Matvælasviðið hefur verið virkasta svið sambandsins til fjölda ára.
Þá kom fram hjá formanni Framsýnar í gær að síðan að Björn Snæbjörnsson tók við sem formaður sambandsins hefði félagið og reyndar Verkalýðsfélag Akraness verið hunsað hvað varðaði þátttöku í nefndum , ráðum og stjórnum á vegum Starfsgreinasambandsins sem væri alvarlegt mál. Máli sínu til stuðnings lagði Aðalsteinn fram fundargerðir Framkvæmdastjórnar SGS þar sem það kemur fram með mjög skýrum hætti.
Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs í gær kom fram megn óánægja með stöðu og vinnubrögð forystumanna Starfsgreinasambandsins. Samþykkt var að svara kalli Starfsháttanefndar SGS og vinna greinagerð um sýn Framsýnar á framtíð Starfsgreinasambandsins. Ákveðið var að tilnefnda Ágúst Óskarsson sem formann nefndarinnar sem skipuð var á fundinum þar sem hann tengist ekki málinu. Fundarmenn voru sammála um að gott væri að fá mann að þessari vinnu sem tengdist ekki málinu með beinum hætti.
Töluverð átök hafa verið innan SGS síðustu ár. Framtíð sambandsins verður væntanlega ákveðin á þingi sambandsins í haust. Hér má sjá framkvæmdastjórn sambandsins ásamt starfsmönnum. Síðan þá hafa starfsmenn sambandsins hætt og sömuleiðis formaður sambandsins.