Framsýn gekk í gær frá kjarasamningi um ákvæðisvinnu við línu og net. Auk Framsýnar stóðu Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Þórshafnar að samningnum. Kjarasamningurinn var gerður milli þessara félaga annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar. Samningurinn gildir frá 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. Formaður Framsýnar sagði samninginn góðan fyrir umbjóðendur sína. Þá hefði náðst að semja um kauptryggingu fyrir beitningamenn upp á kr. 204.345,-. Markmið félagsins í yfirstandandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur hefði verið að tryggja félagsmönnum lágmarkskjör upp á kr. 200.000,- á mánuði. Aðrir atvinnurekendur en LS hefðu ekki haft skilning á þessari kröfu félagsins. Hann sagðist því hafa séð ástæðu við undirskriftina til að hrósa smábátaeigendum fyrir að fara að vilja Framsýnar. Aðalsteinn sagðist hafa fram að þessu neitað að þiggja vöfflur í Karphúsinu eftir undirritun kjarasamninga til að mótmæla skilningsleysi atvinnurekenda á kröfu félagsins um 200.000 króna lágmarkslaun. Hann hefði hins vegar talið við hæfi eftir undirskriftina á föstudaginn að þiggja tertubita og gott kaffi á skrifstofu Landssambands smábátaeigenda. Þess má geta að beitningamenn geta nálgast kjarasamninginn á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þá verður hann einnig fljótlega kominn inn á heimasíðu félagsins.
Formaður Framsýnar hefur fram að þessu neitað vöfflukaffi hjá Ríkissáttasemjara en hann neitaði ekki tertunni góðu hjá Landssambandi smábátaeigenda enda voru þeir tilbúnir að ganga að kröfu félagsins um 200.000 króna lágmarkslaun á mánuði meðan aðrir atvinnurekendur hafa ekki fallist á þá kröfu.
Örn Pálsson starfsmaður LS sem ættaður er frá Ásgarði á Húsavík er hér ásamt Aðalsteini við málverk af heiðursmanninum Jósteini Finnbogasyni frá Húsavík. Jósteinn gerði lengi út trillu frá Húsavík og málverk af honum er í höfuðstöðvum landssambandsins í Reykjavík.