Rétt í þessu var skrifað undir nýjan kjarasamning á milli Framsýnar- stéttarfélags og Verkalýðsfélag Þórshafnar og samninganefndar sveitarfélaga en viðræður hafa staðið yfir síðustu mánuðina. Samningurinn felur í sér sambærilegar launahækkanir og samið var um á almennum markaði auk þess sem félagsmenn Framsýnar halda umsömdum sérkjörum. Félagsmenn Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum þeirra, sbr. dvalarheimilin Hvamm og Naust, eru hvattir til að kynna sér samninginn en atkvæðagreiðsla um hann mun hefjast í næstu viku.
Fyrirhugaður er kynningarfundur á Húsavík um samninginn næstkomandi fimmtudag. Fundartíminn verður auglýstur síðar. Hjá Framsýn mun fara fram póstatkvæðagreiðsla um kjarasamninginn og verða kjörgögn send af stað í næstu viku.
Eftir helgina verður auglýst hvenær kynningarfundur um samninginn verður á Þórshöfn og hvernig atkvæðagreiðslu um samninginn verður háttað hjá Verkalýðsfélagi Þórshafnar.
Kjarasamningur Framsýnar/VÞ við sveitarfélögin
Myndin er tekin á fundi sem Framsýn boðaði til með starfsfólki sveitarfélaga í síðustu viku þegar farið var yfir stöðu viðræðna við samninganefndina. Þá var allt í hnút í viðræðunum þar sem að Framsýn taldi tilboð samninganefndarinnar um launahækkanir vera óásættanlegt fyrir félagsmenn. Sveitarfélögin hafa nú komið verulega til móts við kröfur félagsins sem endaði með undirskrift samningsins nú í hádeginu.