Það er ekki á hverjum degi sem óskir koma fram frá fulltrúum í stjórn eða trúnaðarmannaráði Framsýnar að boðað sé til sérstakra funda umfram reglulega fundi sem haldnir eru einu sinni í hverjum mánuði. Hins vegar bar svo við í síðustu viku eftir samþykkt Framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra sambandsins að fólki í stjórn og trúnaðarmannaráði var gróflega misboðið. Þess vegna kröfðust þau þegar í stað fundar í félaginu. Á fundinum í gær var formaður félagsins, Aðalsteinn Á. Baldursson, sem jafnframt á sæti í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins beðinn um að gera grein fyrir málinu. Aðalsteinn fór yfir umræðuna sem verið hefði innan SGS um málið. Menn hefðu ekki verið sammála um hvernig best væri að ganga frá málinu og hefðu fjórar tillögur komið fram á fundinum. Hann hefði lagt fram eftirfarandi tillögu:
Reykjavík 26.maí 2011
„Undirritaður gerir alvarlegar athugasemdir við framkomna tillögu formanns Starfsgreinasambands Íslands og leggst alfarið gegn henni. Þess í stað leggur undirritaður til að síðustu fjögur ár í rekstri sambandsins verði skoðuð af löggildum endurskoðanda í ljósi upplýsinga sem liggja fyrir úr bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010. Í framhaldi af því verði tekin endanleg ákvörðun um hvort ástæða verði til að kæra málið til lögreglu eða ekki.
Undirritaður telur sig ekki hafa umboð félagsmanna innan SGS til að gefa eftir afteknar greiðslur framkvæmdastjóra SGS og gert er grein fyrir í skýrslu Deloitte sem samin var sérstaklega fyrir sambandið. Í ljósi þessa leggur undirritaður fram ofangreinda tillögu til lausnar málinu.“
Aðalsteinn Á. Baldursson
Hans tillaga hefði ekki komist á dagskrá þar sem tillaga formanns sambandsins um uppgjör við framkvæmdastjórann hefði áður verið tekin til afgreiðslu. Hún gerði ráð fyrir að greiða starfsmanninum sex mánaða uppsagnarfrest auk orlofs. Auk þess sem hann yrði ekki áfram í ráðningarsambandi við Starfsgreinasambandið. Starfsmanninum væri einnig ætlað að greiða ákveðna upphæð til sambandsins vegna rekstrarársins 2010.
Aðalsteinn sagðist ekkert leyna því að hann hefði verið mjög óánægður með tillögu formannsins en naumur meirihluti framkvæmdastjórnarmanna hefði samþykkt hana, það er 8 fulltrúar af 12. Hann hefði verið í þeim hópi sem greiddi atkvæði gegn tillögu formannsins sem kostaði sambandið væntanlega um 6. milljónir með launatengdum gjöldum. Upplýsingar um heildarkostnaðinn hefðu hins vegar ekki legið fyrir fundinum þrátt fyrir að hann hefði beðið um þær. Þess vegna hefði hann látið bóka:
„Undirritaður telur með ólíkindum að meirihluti framkvæmdastjórnar skuli samþykkja tillögu formanns SGS um starfslok framkvæmdastjóra sambandsins án þess að fyrir liggi heildarkostnaður sambandsins við starfslokin. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og verða vonandi aldrei viðhöfð aftur í starfi sambandsins.“
Aðalsteinn Á. Baldursson
Eftir að Aðalsteinn hafði gert grein fyrir málinu urðu mjög harðar umræður um ákvörðun og vald framkvæmdastjórnar sambandsins. Menn veltu upp ýmsum atriðum varðandi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að greiða starfsmanninum laun út uppsagnarfrestinn þrátt fyrir skýrslu endurskoðenda og álit lögfræðings sem unnin var fyrir Starfsgreinasambandið á bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010. Þar eru gerðar alvarlegar athugsemdir við úttektir og færslur framkvæmdastjórans í bókhaldi sambandsins. Samþykkt var að álykta um málið og var trúnaðarmannaráði falið að setja saman ályktun eftir fundinn og koma henni á framfæri. Fundurinn í gær var langur og strangur enda tóku flestir fundarmanna til máls enda málefnið þess efnis að menn vildu koma sínum skoðunum á framfæri. Tæplega 30 fulltrúar sitja í stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar.
Frá fundinum í gær, tæplega 30 manns sitja í stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar.