Framsýn stóð fyrir vel heppnaðri orlofsferð um liðna helgi. Á þriðja tug félagsmanna nýtti tækifærið og fór í skoðunarferð um Norðausturland dagana 28.-29. maí.
Haldið var af stað frá Húsavík klukkan 8 á laugardagsmorgni. Fyrst var farið í Mývatnssveitina og kíkt í Dimmuborgir, Grjótagjá og Námaskarð. Meirihluti þeirra sem fóru í ferðina eru félagsmenn frá Póllandi sem hafa lítið skoðað þetta svæði og fannst þeim mjög spennandi að sjá þessar náttúruperlur í fyrsta sinn.
Næst var stefnan sett á þungbúin Möðrudalsöræfin. Þrátt fyrir votviðrisspá rættist úr og gat ferðafólkið viðrað sig á áningastað í Möðrudalnum þar sem alla jafna er gott útsýni yfir Herðubreið. Drottning íslenskra fjalla hafði þó sveipað sig þokuslæðum og neitaði að láta sjá sig. Til allrar lukku var farastjórinn með ljósmynd af fjallasýninni í farteskinu svo að þeir ferðalangar sem þarna voru að koma í fyrsta skipti fengu smjörþefinn af fegurðinni sem þarna býr með því að stilla myndinni upp á réttum stað. Á leið niður Jökuldalinn sáust nokkur hreindýr á ferð sem vöktu mikla lukku. Vopnaðir myndavélum létu ferðamennirnir skotin vaða á dýrin sem létu það þó ekki trufla sig hið minnsta.
Í hádeginu var áð á Egilsstöðum áður en haldið var upp með Lagarfljótinu áleiðis á Skriðuklaustur. Þegar tilkynnt var í rútunni að á leiðinni yrði ekið í gegnum stærsta skóg á Íslandi, Hallormsstaðaskóg, fannst Pólverjunum ekki mikið til koma, enda flestir uppaldir í grennd við ,,alvöru“ skóga í Póllandi. Hallormsstaðaskógurinn kom þeim þó skemmtilega á óvart og höfðu nokkrir þeirra orð á því að skógurinn minnti þá á sum landsvæði í Póllandi.
Mikið var horft eftir Lagarfljótsorminum en hann lét ekki sjá sig í þetta skiptið.
Á Skriðuklaustri var hópnum skipt upp, sumir fengu sér kaffi og kökur á meðan aðrir meðtóku fræðslu um fornleifauppgröft sem þar hefur varið í gangi undanfarin ár auk þess að kynnast lífi og verkum Gunnars Gunnarssonar rithöfundar sem bjó á Skriðuklaustri. Grasivaxið þakið vakti einnig nokkra athygli og miklar vangaveltur voru uppi um það hvernig það væri hirt. Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að tvö atriði skipta mestu máli við að slá þök, annars vegar að kunna að beita orfi og ljá og svo að geta haldið jafnvægi. Lofthræðsla ku vera mikill ókostur í þessu starfi.
Næsti áningastaður var Hótel Tangi á Vopnafirði og var því haldið aftur upp Jökuldalinn og áleiðis yfir Vopnafjarðarheiðina þar sem Hellisheiðin var lokuð. Á Vopnafjarðarheiðinni urðu fleiri hreindýr á vegi hópsins og myndavélunum beitt óspart til að festa þau á minniskort. Þoka á heiðinni kom þó í veg fyrir að hópurinn fengi notið útsýnisins af Burstafelli. Kvöldmatur var etinn með bestu lyst á Hótel Tanga og svo var slegið upp litlu diskóteki í sal hótelsins.
Snemma á sunnudagsmorgni var lagt af stað áleiðis til Bakkafjarðar og Þórshafnar. Góður andi var í mannskapnum þrátt fyrir þokusúld og kulda fram eftir morgni. Eftir stutt stopp á Þórshöfn var lagt á Hófaskarðið og svo hádegisverðarhlaðborð á Hótel Norðurljósum á Raufarhöfn. Að loknum hádegisverðir fylgdi Erlingur hótelstjóri hópnum upp í heimskautagerðið sem verið er að reisa skammt frá þorpinu. Einnig var tekinn rúntur í grjótnámu niðri við sjóinn þangað sem efnið í gerðið er sótt.
Kópasker var næsti viðkomustaður og þar heilsaði hópnum feitur selur á steini. Hann var fljótur að velta sér til sunds þegar reynt var að nálgast hann. Einhverjir munu þó hafa náð góðum myndum af kauða sem verða settar inn á heimasíðuna síðar.
Að lokum var tekið stutt ferðahlé í Ásbyrgi áður en hópurinn skilaði sér aftur til Húsavíkur seinni partinn á sunnudag. Þrátt fyrir leiðindi í veðrinu voru ferðalangarnir himinlifandi með ferðina enda frábær andi í hópnum og flestir búnir að fá tækifæri til að upplifa eitthvað alveg nýtt.
Vatnið í Grjótagjá vakti mikla athygli ferðlanganna.
Þar sem Herðubreið var utan sjónmáls var ákveðið að bjóða ferðalöngunum upp á nýjustu tækni í sýndarferðaþjónustu eins og sjá má á myndinni hér að ofan.
Ferðafólkinu fannst heimskautagerðið mjög athyglisvert.
Fleiri myndir úr ferðinni má nálgast á myndasíðu Framsýnar.