Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fór í heimsókn til Færeyska Verkamannasambandsins (Foroya Arbeiðarafelag) í síðustu viku. Fulltrúarnir fóru á eigin vegum. Færeyingarnir skipulögðu frábærar móttökur auk þess sem þeir færðu öllum gestunum frá Íslandi veglegar gjafir. Meðan á ferðinni stóð, buðu nokkur stéttarfélög í Færeyjum fulltrúum Framsýnar í hádegis- og kvöldverði. Í Færeyjum fengu stjórnendur Framsýnar líka mjög góða kynningu á réttindum og skyldum verkafólks í Færeyjum auk þess sem komið var inn á starfsemi stéttarfélaga í Færeyjum. Íslensku fulltrúarnir fengu líka góða kynningu á atvinnulífinu í Færeyingum og heimsóttu meðal annars í því sambandi fiskimjölsverksmiðjuna Havsbrún í Fuglafirði. Allir sem fóru í ferðina voru sammála um að hún hefði tekist afar vel og gestrisni frænda okkar í Færeyjum hefði verið með ólíkindum. Reyndar tók að gjósa á Íslandi meðan á ferðinni stóð þannig að fulltrúarnir urðu að skipta um ferðaáætlun heim. Til stóð að fljúga heim til Íslands en vegna eldgossins urðu félagarnir í Framsýn að taka Norrænu til Seyðisfjarðar í brjáluðu veðri. Þrátt fyrir leiðinda veður komust allir heim á endanum sælir og glaðir eftir velheppnaða ferð.Hópurinn frá Framsýn við fiskimjölsverksmiðjuna Havsbrún í Fuglafirði sem er vinabær Húsavíkur.
Hópurinn eftir skoðunarferðina í fiskimjölsverksmiðuna Havsbrún í Fuglafirði.
Það var mikið um veislur í boði stéttarfélaganna í Færeyjum.
Gestgjafarnir: Georg F. Hansen formaður og Elin Sorensen varaformaður Færeyska Verkamannasambandsins.
Hópurinn fékk mjög góðar kynningar á starfsemi stéttarfélaga í Færeyjum og réttindum verkafólks.
Formenn Verkakvennafélagsins og Verkamannafélagsins í Klaksvík buðu fulltrúum Framsýnar í veislu þar sem þeir gáfu Framsýn gjöf frá félögunum fyrir góð vinatengsl.
Lognið á undan storminum. Olga og Svava náðu vel saman með þessum furðufugli um borð í Norrænu þegar lagt var frá Þórshöfn. En síðan fór veðrið að versna.
Það er víða fallegt í Færeyjum. Fulltrúum Framsýnar var boðið í skoðunarferðir um Færeyjar þegar þeir voru þar á ferð. Hér eru Ósk, Valgeir og Ágúst að skoða sig um í Færeyjum.