Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum standa nú yfir viðræður milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar um nýja kjarasamninga. Líkur eru taldar á að skrifað verði undir kjarasamningana í dag. Athygli vekur að Ríkissáttasemjari hefur ekki talið ástæðu til að boða fulltrúa Framsýnar, Verkalýðsfélags Þórshafnar og Verkalýðsfélags Akraness til fundar í Karphúsið en þau fara sjálf með sín mál varðandi kjarasamning félagsmanna á almenna vinnumarkaðinum. Þá hefur forsvarsmönnum félagsins heldur ekki borist gögn í hendur frá Samtökum atvinnulífsins sem þeir áttu að fá síðasta mánudag til að yfirfara. Framsýn gerði athugasemdir við vinnubrögðin í gærkvöldi. Samkvæmt fréttum úr Karphúsinu virðist sem samningur sem Verkalýðfélag Akraness gerði nýlega við Elkem verði til þess að verkafólk fái meira í vasann sé miðað við þær hækkanir sem lágu á borðinu hjá ASÍ og SA fyrir páska. Barátta Verkalýðsfélags Akraness er því að skila árangri til verkafólks í landinu sem er gott mál. Snæbjörn Sigurðarson starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna tekur þátt í samningaviðræðum LÍV og SA en hann er í samninganefnd Landssambandsins.