Forsetinn fór fögrum orðum um starfsemi Framsýnar

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fór mjög svo fögrum orðum um starfsemi og málflutning Framsýnar á afmælishátíð félagsins 1. maí. Hann sagði bestu afmælisgjöfina fyrir félagsmenn vera að félagið héldi áfram þeim málflutningi sem félagið stæði fyrir og tekið væri eftir:

„Rödd Framsýnar- stéttarfélags Þingeyinga sem netmiðlar og ljósvakinn varpar um þjóðartorgið er rómsterk og áhrifarík; hefur á stundum verið sem samviska launafólks þegar miklar ákvarðanir eru í vændum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, meðal annars í ávarpi við hátíðarhöldin á Húsavík þar sem þess var minnst að 100 ár eru liðin frá upphafi stéttabaráttu í Þingeyjarsýslum. „Á slíkum stundum þarf sterka rödd til að flytja skoðanir sem ríkjandi eru á vinnustöðum; varasamt að láta bara atvinnumenn í stofnunum og höfuðstöðvum eina ráða för.“ Sagði Ólafur Ragnar.

Deila á