Vorferð stéttarfélaganna

Vegna óska frá erlendum félagsmönnum stéttarfélaganna hefur verið ákveðið að setja upp tveggja daga skoðunarferð um Norðausturland, helgina 28. – 29. maí fyrir félagsmenn Framsýnar og Þingiðnar og maka þeirra. Farið verður frá Skrifstofu stéttarfélaganna kl. 08:00 á laugardeginum og komið heim á sunnudagskvöldið.  Gist verður á Hótel Tanga á Vopnafirði. Þátttökugjaldið er kr. 15.000,-. Innifalið er rúta, gisting á Tanga með morgunverði og grill á laugardagskvöldið. (Athugið að hægt er að nota afmælisgjöf Framsýnar sem greiðslu upp í ferðina. Þetta á við um fullgilda félagsmenn). Skráning í ferðina stendur yfir á Skrifstofu stéttarfélaganna til 13. maí n.k.   

Ferðatilhögun:

 Laugardagur
Lagt af stað kl. 08:00 og ekið sem leið liggur í Mývatnssveit og þaðan í Möðrudal. Staðurinn liggur í 469 m hæð yfir sjávarmáli og er hæst byggðra bóla á landinu. Ef veður verður hagstætt er gott útsýni inn á hálendið. Frá Möðrudal verður haldið sem leið liggur austur á Fljótsdalshérað og þar tekinn hringur um svæðið. Síðari hluta dags verður farið um Jökulsárhlíð og yfir Hellisheiði eystri áleiðis til Vopnafjarðar. 

Sunnudagur
Frá Vopnafirði verður ekið til Bakkafjarðar og þaðan fram hjá tignarlegu Gunnólfsvíkurfjalli til Þórshafnar.  Gert er ráð fyrir smá gönguferð um Rauðanes við Þistilfjörð áður en haldið er til Raufarhafnar. Þar verður m.a. fræðst um Heimskautsgerði sem er í byggingu en verður einstakt á heimsvísu. Raufarhöfn er staðsett nokkra km sunnan við heimskautsbaug sem liggur rétt utan við strandlengjuna á Melrakkasléttu. Rauðinúpur er áhugaverður staður til að heimsækja, forn eldstöð, einskonar útvörður Atlantshafshryggsins sem Ísland stendur á. Næst verður komið við á Kópaskeri og í Ásbyrgi áður en haldið er um Kelduhverfi og Tjörnes til Húsavíkur

 Texti um svæðin eru t.d. á
http://visitnortheasticeland.is/districts/thistilfjordur-langanes-and-bakkafjordur/

http://visitnortheasticeland.is/districts/oxarfjordur-and-melrakkasletta/

 (á íslensku  http://www.nordausturland.is/svaedin/

 Gera má ráð fyrir að þetta verði nokkuð langir dagar, farið er víða en fólk fær líka mjög fjölbreytta sýn/landslag og umhverfi og nær því vonandi að upplifa ferðalagið skemmtilegt og áhugavert.

Deila á