Mikil og góð stemning var á 1. maí hátíðarhöldunum í Íþróttahöllinni á Húsavík í dag. Ríflega 1000 hátíðargestir komu og tóku þátt í hátíðinni sem var með veglegra móti í ár í tilefni þess að um þessar mundir eru liðin 100 ár frá stofnun fyrsta stéttarfélagins á Húsavík, Verkamannafélags Húsavíkur. Meðal hátíðargesta voru forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Forsetinn flutti ávarp á hátíðinni þar sem hann m.a. hvatti Framsýn til að halda áfram sínum málflutningi í baráttu sinni fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna. Hlustað væri á rödd félagsins enda kæmi hún beint frá grasrótinni.
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar flutti einnig hátíðarræðu sem sjá má hér á heimasíðunni.
Boðið var upp á fjölda tónlistar- og skemmtiatriða sem tókust að sögn hátíðargesta frábærlega, þeir áttu ekki til orð. Áður er formleg dagskrá hófst lék Sigurður Hallmarsson á harmonikku fyrir gesti þegar þeir komu inn í salinn. Hljómsveitin Hundur í óskilum steig á stokk og skemmti hátíðargestum með tónlist og sprelli, Kirkjukór Húsavíkur ásamt hljómsveitinni SOS flutti nokkur létt dægurlög, Gísli Einarsson sjónvarpsmaður með meiru fór með gamanmál, Karlakórinn Hreimur flutti íslenska og rússneska tónlist, söngdívan Hera Björk Þórhallsdóttir flutti nokkur lög með karlakórnum og lauk hún svo hátíðinni með því að flytja Eurovisionlagið Je Ne Sais Quoi ásamt hóp af ungum aðdáendum sem hún bauð upp á sviðið að syngja með sér. Sannarlega frábær endir á frábærum degi.
Forseti Íslands, Ólafur Grímsson, Aðalsteinn Á. Baldursson, Björn Grétar Sveinsson og Björn Snæbjörnsson voru meðal gesta hátíðarinnar í dag.