Verður Stjörnuhrap á laugardaginn?

Karlaklúbburinn SÓFÍA blæs til Íþrótta- og fjölskyldudags í Íþróttahöllinni á Húsavík laugardaginn 30. apríl kl. 14:00. Boðið verður upp á leiki og tónlistaratriði. Þá verður hægt að kaupa kaffi á staðnum. Miðaverð er kr. 500. Allur ágóði rennur til kaupa á fjölnota sviði og veislubúnaði í bæinn. Meðal skemmtiatriða verður leikur Stjörnuliðs Kúta og Karlaklúbbsins SÓFÍU en þeir skoruðu á Kúta að koma með sitt Stjörnulið til keppni. Ljóst er að tekist verður á í höllinni á laugardaginn.

Kúti hefur ekki viljað gefa upp hverjir skipi Stjörnuliðið og verst allra frétta en þó hefur lekið út að markmaðurinn hafi verið keyptur frá Reykjanesbæ og muni verja mark Stjörnuliðsins. Helstu sparkspekingar spá því að það verði stjörnuhrap í höllinni á laugardaginn en því neitar Kúti staðfastlega. Hann hvetur fólk til að mæta í höllina og skemmta sér auk þess að styðja gott málefni.

Spurningin er hvort Karlaklúbburinn SÓFÍA muni beita sömu brögðum við Stjörnlið Kúta eins og markmaður HSÞb gerði við einn af leikmönnum Tjörnes United á Mærudögum. Þetta bragð markmannsins varð til þess að HSÞb sigraði Tjörnes með einu marki. Það voru brögð í tafli eins og sjá má.

Deila á