Fulltrúar Framsýnar munu funda um kjaramál með Samtökum atvinnulífsins í dag kl. 14:00. Því miður hafa viðræður gengið illa og hefur SA að mestu hunsað kröfur Framsýnar um hækkun lægstu launa. Þá hafa þeir staðið sig mjög illa í að skila umbeðnum gögnum til félagsins er varðar viðræðurnar. Að mati formanns Framsýnar er ekkert annað í stöðunni en að boða til aðgerða á vinnumarkaðinum í vor. Hann hafi lengi komið að kjaraviðræðum við atvinnurekendur og aldrei kynnst álíka vinnubrögðum og framkomu að hálfu viðsemjenda eins og í þessum kjarasamningum. Þeim skilaboðum verði komið á framfæri á fundinum í dag meðal annars og þess krafist að Samtök atvinnulífsins virði kjarabaráttu verkafólks. Viðræðurnar fara fram í húsnæði ríkissáttasemjara enda hefur Framsýn þegar vísað kjaradeilunni þangað.
Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn vinna náið saman í þeim kjaraviðræðum sem standa yfir auk Verkalýðsfélags Þórshafnar. Bandalag félaganna er kallað Alþýðubandalagið og er þá verið að horfa til þess að félögin þrjú njóta mikillar virðingar meðal verkafólks. Hér eru formenn VA og Framsýnar að ræða saman um næstu skref í kjaradeilunni.