Hvað er ASÍ að semja um? 200 þúsund duga ekki til lágmarksframfærslu

 Ekki fækkar þeim er þurfa á matargjöfum að halda hérlendis. Slík staða verður líklega viðvarandi miðað við kröfur verkalýðsfélaga. Rétt er að spyrja, um hvaða lífskjör og lágmarkslaun Alþýðusamband Íslands er eiginlega verið að semja fyrir láglaunafólk? Ljóst er að slík upphæð, 200 þúsund króna lágmarkslaun, dugir ekki til lágmarksframfærslu árið 2011. Er raunhæft að ætla fólki slík lífskjör árið 2014?
Þessa spurningu leggur félagsfræðingurinn Harpa Njáls fram í grein í Morgunblaðinu um neysluviðmið stjórnvalda sem kynnt voru í vetur og áttu að bregðast við kröfu samfélagsins um almenn framfærsluviðmið. Það segir Harpa hafa mistekist illilega og að skýrsla nefndarinnar veki fleiri spurningar en svör. 

Sýna útreikningar Hörpu að atvinnulausum vantar 32 prósent upp á að ná lágmarksviðmiðum til skamms tíma samkvæmt skýrslunni og að öryrkja og ellilífeyrisþega vanti 20 prósent upp á að ná sama viðmiði. 

Dæmigerð viðmið byggjast á gagnasafni Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna og sýna hvaða lífskjör fjölskyldur á Íslandi geta almennt veitt sér. Það er spurning hvert notagildi þessa viðmiðs er umfram það að fólk geti metið hvort það búi við betri eða verri lífskjör en meðal Jón á Íslandi.

 Í skýrslu velferðarráðuneytisins kemur fram að »skammtímaviðmið« byggjast á sömu forsendum og dæmigerð viðmið, nema hvað niðurskurði er beitt til lækkunar mánaðarlegum útgjöldum. Skýrsluhöfundar segja: Allir útgjaldaliðir voru yfirfarnir og mat lagt á það hvort hægt væri að fresta þeim um allt að níu mánuði án þess að það kæmi niður á þeim lífskjörum sem til viðmiðunar eru í dæmigerða viðmiðinu.

 Hafa ber í huga að þetta er niðurskurður á dæmigerðu neysluviðmiði sem hvorki er talin lúxus- né lágmarksneysla. Þessi niðurskurður byggist á huglægu mati og vegur þungt í krónum talið, þ.e. dæmigert viðmið fyrir einstakling er 291.932 kr. á mánuði og sú neysla er skorin niður um þriðjung samkvæmt skammtímaviðmiði og er 201.132 kr. á mánuði.

 Hér er talið óraunhæft með öllu að ætla fólki lægri/minni neyslu til framfærslu árið 2011 en útgjöld samkvæmt skammtímaviðmiði velferðarráðuneytisins.

 Eins og fram kemur er krafa verkalýðsforystunnar um 200.000 króna lágmarkslaun árið 2014. Rétt er að spyrja, um hvaða lífskjör og lágmarkslaun er eiginlega verið að semja fyrir láglaunafólk? Ljóst er að slík upphæð dugir ekki til lágmarksframfærslu árið 2011. Er raunhæft að ætla fólki slík lífskjör árið 2014?

(Heimild eyjan.is)

Deila á