Framsýn, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Þórshafnar óskuðu í morgun eftir fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins um sérmál og launalið kjarasamnings aðila. Þessi þrjú félög ákváðu á sínum tíma að segja skilið við önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands vegna mismunandi áherslna í kröfugerð sambandsins. Þessi þrjú félög hafa lagt áherslu á að 200.000 króna tekjutrygging kæmi til framkvæmda strax meðan önnur stéttarfélög innan SGS hafa fallist á að þessari tekjutryggingu verði náð síðar á samningstímanum en talað hefur verið um þriggja ára samningstíma.
Félögin þrjú hafa átt fundi með fulltrúum SA en þeir hafa ekki viljað ganga frá neinu meðan þeir hafa átt í viðræðum við landsambönd ASÍ og stjórnvöld. Þolinmæði þessara þriggja félaga og félagsmanna þeirra er fyrir löngu þrotin og nú vilja þau láta reyna á hvort Samtök atvinnulífsins vilji ganga að hófværum kröfum þeirra um 200.000 króna tekjutryggingu þegar í stað, í stað þess að hún komi eftir nokkur ár sem er gróf móðgun við verkafólk. Nánar verður fjallað um málið þegar svar liggur fyrir frá Samtökum atvinnulífsins.