Þingeyskt handbragð í Hörpunni

Fulltrúar Framsýnar voru á ferðinni í gær og heimsóttu nokkur fyrirtæki í Reykjahverfi sem er hluti af sveitarfélaginu Norðurþingi. Þar hefur lengi verið öflug atvinnustarfsemi. Eitt af þeim fyrirtækjum sem verið hefur að gera góða hluti er Sögin ehf. sem er fjölskyldufyrirtæki í eigu Gunnlaugs Stefánssonar og fjölskyldu hans. Árið 1999 keypti fjölskyldan fyrirtækið sem var með rekstur á höfuðborgarsvæðinu og flutti það norður. Væntanlega hefur þetta verið nokkuð stór ákvörðun, það er að færa fyrirtækið frá stærsta markaðssvæðinu norður í einn fámennasta hrepp landsins á þeim tíma. En menn höfðu trú á verkefninu sem gengið hefur vel frá upphafi og er í dag með 5 stöðugildi í framleiðslu á gólf- og frágangslistum. Sögin er einnig með 2 starfsmenn í Kópavogi, sölumann og markaðs- og verkefnastjóra. Þá hefur fyrirtækið einnig tekið að sér sérverkefni eins og að smíða veggjaklæðningu í tvo sali í tónlistarhúsið Hörpuna í Reykjavík. Salirnir nefnast Norðurljós og Kaldalón. Að sögn Gunnlaugs tók smíðin um 6 mánuði og kom sér vel fyrir fyrirtækið. Um er að ræða hljóðdeyfiklæðningar úr Aski.

Almennt var Gulli ánægður með reksturinn en sagði þó nokkrar ytri aðstæður ekki hliðhollar atvinnurekstri á landsbyggðinni eins og flutningskostnaður sem væri alltof hár sem kæmi sér illa þar sem hann væri háður aðföngum og flutningum á framleiðslunni suður á höfuðborgarsvæðið sem væri aðal markaðssvæðið.

Eftir leiðsögn um fyrirtækið og starfsemina var formanni Framsýnar boðið í kaffi þar sem dregin var upp hákarl af bestu gerð með kaffinu. Það var létt yfir starfsmönnum í kaffinu og mörg mál tekin til umræðu, það er allt frá sauðburði til Icesave.

Ármann er alltaf svellkaldur töffari.

Gunni er ekki bara góður verkmaður heldur líka frábær hestamaður og á nokkra góða reiðhesta.

Atli Jespesen gaf sér tíma til að líta upp frá verki.

Deddi var á fullu að afgreiða pantanir og því var ekki auðvelt að ná honum á mynd.

Meistaraverk. Sögin ehf. sá um að smíða hljóðdeyfiklæðningar í Hörpuna.

Deila á