Afmælisglaðningur til fullgildra félagsmanna

Aðalfundur Framsýnar vegna ársins 2010 fór fram fimmtudaginn 31. mars. Fundurinn var sá fjölmennasti til fjölda ára og mikil ánægja kom fram á fundinum með starfsemina og rekstur félagsins. Félagsmenn eru 2.250 og nær félagssvæðið yfir Þingeyjarsýslur. Stærsti launagreiðandinn til Framsýnar á síðasta ári var Brim hf. Þá varð hagnaður af öllum sjóðum félagsins samtals  kr.  81.608.720,-. Heildareignir félagsins námu kr. 1.175.376.737,- í árslok og höfðu aukist að raungildi frá fyrra ári. 

Um 700 félagsmenn fengu styrki úr sjúkrasjóði félagsins alls kr. 19.411.915,-. Þá fengu félagsmenn Framsýnar greiddar kr. 157.801.508,- í atvinnuleysisbætur.  Til viðbótar greiddi Framsýn 304 félagsmönnum kr.  6.733.899,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum sem félagið á aðild að. Á fundinum var jafnframt ályktað um löggæslumál, kjara- og atvinnumál.

Ákveðið var að halda veglega upp á afmæli stéttabaráttu í Þingeyjarsýslum með afmælisveislu í íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí. Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur, nú Framsýnar- stéttarfélags.   Í tilefni af afmælinu var jafnframt ákveðið að gefa félagsmönnum 22,5 milljónir í afmælisgjöf. Hver félagsmaður fær í sinn hlut 10.000 króna inneign hjá félaginu til að greiða niður kostnað sem þeir verða fyrir er tengist sjúkra-, orlofs eða fræðslusjóði félagsins. Þessi inneign kemur til viðbótar þeim góða rétti sem félagsmenn eiga í dag á endurgreiðslum frá félaginu.

Í lok fundar var klappað fyrir afmælisgjöfinni sem og stjórnendum félagsins fyrir frábær störf í þágu félagsmanna. Þrátt fyrir kreppuna stendur Framsýn vel fjárhagslega og hefur því burði til að veita félagsmönnum áfram góða þjónustu. Í því sambandi má nefna að opnunartími skrifstofu félagsins er sá lengsti meðal stéttarfélaga á Íslandi. Nánari fréttir af aðalfundinum verða birtar hér á heimasíðunni á næstu dögum.

Þjár áhugasamar konur skoða gögn fundarins, Sigrún frá Húsavík, Jóna úr Reykjadal og Svava frá Raufarhöfn.

Fundarmenn sáu ástæðu til að klappa fyrir starfsemi félagsins í gær og fyrir afmælisgjöfinni að sjálfsögðu.

Þorsteinn, Trausti og Jakob Hjaltalín fara yfir málin í fundarhléi.

Deila á