Húsfyllir á aðalfundi í kvöld

Húsfyllir var á fjörugum aðalfundi Framsýnar- stéttarfélags sem var að ljúka rétt í þessu.  Miklar umræður urðu á fundinum um kjaramál og starfsemi félagsins.  Fundarmenn lýstu ánægju sinni með störf félagsins og fengu stjórnarmenn og starfsfólk félagsins einróma lof fyrir störf sín en afkoma félagsins var góð á síðasta ári og er staða félagsins mjög sterk. Nánar verður fjallað um fundinn á morgunn. Á fundinum voru eftirfarandi ályktanir samþykktar samhljóða:

Ályktun
um löggæslu í Þingeyjarsýslum

 Aðalfundur Framsýnar- stéttarfélags tekur heilshugar undir áhyggjur Lögreglufélags Þingeyinga varðandi frekari niðurskurð til löggæslumála í héraðinu sem er eitt hið víðfeðmasta á Íslandi. Á undanförnum árum hefur linnulaust verið skorið niður fjármagn til löggæslumála í Þingeyjarsýslum með tilheyrandi óöryggi fyrir íbúa og ferðafólk á svæðinu auk þess sem starfsumhverfi lögregluþjóna sem sinna löggæslustörfum er þeim ekki lengur bjóðandi. Framsýn skorar á ráðamenn þjóðarinnar að auka þegar í stað fjármagn til löggæslu á svæðinu svo hún standi undir nafni  og auki þannig öryggi íbúanna og þeirra sem sinna löggæslustörfum á hverjum tíma. Með lögum skal land byggja.

Ályktun
um kjara- og atvinnumál

Aðalfundur Framsýnar skorar á Samtök atvinnulífsins að ganga nú þegar til samningaviðræðna  við verkalýðshreyfinguna af ábyrgð og festu í stað þess að halda verkafólki í gíslingu vegna endurskoðunar stjórnvalda á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Samtök atvinnulífsins hafa neitað að ganga að kröfum Framsýnar um að lægstu laun hækki þegar í stað í kr. 200.000,- en félagið sagði sig frá samstarfi við Starfsgreinasamband Íslands, þar sem önnur stéttarfélög innan sambandsins fyrir utan tvö, voru ekki tilbúin að halda kröfunni til streitu. Samtök atvinnulífsins telja þessa hófværu kröfu vera út úr kortinu á sama tíma og forsvarsmenn samtakanna, sem mörkuðu launastefnu SA, þegja þunnu hljóði um sín ofurlaun sbr. bankastjóri Íslandsbanka. Alþýðusambandi Íslands, sem er í forsvari aðildarfélaga sambandsins í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld, ber að halda á lofti kröfunni um að lægstu laun taki mið af neysluviðmiði Velferðarráðherra.  Annað væri ábyrgðarleysi.  Þá ítrekar Framsýn, enn og aftur, mikilvægi þess að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins horfi til landsins alls er varðar tillögur um atvinnuuppbyggingu. Því miður hefur lítið örlað á hugmyndum um raunhæfa atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Verði ekki búið að ganga frá kjarasamningum um helgina við Samtök atvinnulífsins hvetur aðalfundur Framsýnar til róttækra aðgerða á vegum Alþýðusambands Íslands til að knýja fram kjarasamninga sem nú þegar hafa verið lausir í fjóra mánuði. Aðgerða sem byggja á skipulögðum mótmælum og allsherjarverkföllum um land allt. Þolinmæði verkafólks er löngu þrotin, samninga strax!!

 Fundarstjórinn Ágúst Óskarsson gerði grein fyrir ályktun um kjara- og atvinnumál sem var samþykkt samhljóða í kvöld enda töluverður hiti í mönnum vegna stöðunnar í kjaraviðræðunum.

Deila á