Framsýn stóð nýlega fyrir fundi með þjóðfundarsniði um stöðu félagsins og framtíðarsýn. Þar kom sterklega fram að mikilvægt væri að auka vægi ungs fólk í störfum félagsins, það er í nefndum stjórnum og ráðum. Nú hefur verið ákveðið að leita að ungu fólki á aldrinum 18 – 35 ára sem er tilbúið að taka þátt í öflugu og skemmtilegu starfi Framsýnar. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna í síma 464-6600 eða með því að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is.
Þá má geta þess að á ársfundi ASÍ haustið 2010 var ákveðið að stofna þing ungs launafólks innan Alþýðusambands Íslands, ASÍ-UL sem Framsýn á aðild að. Rétt til setu á þinginu eiga einn fulltrúi hvers aðildarfélags ASÍ á aldrinum 18-35 ára. Stofnuð hefur verið undirbúningsnefnd til að halda utan um stofnun ASÍ-UL sem í sitja fulltrúar allra landssambanda og félaga með beina aðild. Undirbúningsnefnd stofnþings ASÍ-UL hefur ákveðið að efna til funda með ungu launafólki í öllum aðildarfélögum ASÍ-UL á næstunni. Markmiðið með þessum fundum er að víðtæk samvinna og samstaða skapist meðal ungs fólks í aðildarfélögum ASÍ. Þannig er mikilvægt að undirbúningshópur ASÍ-UL geti sótt hugmyndir, áherslur og stuðning frá ungu fólki í öllum aðildarfélögum ASÍ og jafnframt að félagslegt bakland verði til í aðildarfélögunum sem fulltrúar þeirra á þingum ASÍ-UL geti sótt til. Ákveðið hefur verið að efna til fundar með ungu launafólki á Norðurlandi 13. apríl nk. Á fundinum munu taka þátt ungt launafólk frá Einingu-Iðju, Framsýn, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, Þingiðn, Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, Rafvirkjafélagi Norðurlands, Sjómannafélagi Eyjafjarðar og Sjómannafélagi Ólafsfjarðar. Fundurinn verður haldinn í sal að Einingar- Iðju þann 13. apríl nk. og hefst kl. 17:00 og mun standa til kl. 20:00.
Framsýn leitar að ungu og kraftmiklu fólki í nefndir og ráð á vegum félagsins þar sem áhugi er fyrir því að gera þátt þeirra meiri í starfsemi félagsins.