Framsýn leggur fram sóknaráætlun í atvinnumálum

Í gær gengu fulltrúar Framsýnar- stéttarfélags á fund ríkistjórnar Íslands til að kynna fyrir þeim sóknaráætlun félagsins í atvinnumálum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ásamt Sigurði Snævarr efnahagsráðgjafa ríkistjórnarinnar tóku á móti gestunum frá Húsavík. Að hálfu Framsýnar tóku Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar og Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður þátt í fundinum. Fulltrúar Framsýnar gerðu fulltrúum ríkistjórnarinnar grein fyrir sóknaráætlun félagsins í atvinnu- og byggðaþróun.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga tók að sér að vinna sóknaráætlunina fyrir Framsýn í góðu samstarfi við félagið og atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum á svæðinu var gefinn kostur á að hafa áhrif á áætlunina. Steingrímur og Jóhanna tóku hugmyndunum vel og þökkuðu Framsýn fyrir góða vinnu. Þau sögðu plaggið gott innlegg inn í atvinnumálahóp sem myndaður hefur verið á vegum ríkistjórnarinnar og Sigurður Snævarr fer fyrir. Nú er bara að vona að forsvarsmenn ríkistjórnarinnar fylgi hugmyndum Framsýnar eftir í atvinnumálum.  Áætlunina í heild sinni má lesa hér: Sóknaráætlun í atvinnumálum.

Sigurður Snævarr efnahagsráðgjafi ríkistjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar og Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður Framsýnar ræddu um sóknaráætlun í atvinnumálum Þingeyinga í stjórnarráðinu í gær.

Deila á