Úrskurði kjararáðs mótmælt og yfirlýsingum FÍB

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Helstu málefni fundarins voru eftirfarandi. Farið var yfir stöðu kjaraviðræðna, gert var grein fyrir ávöxtun fjármuna félagsins, fjallað var um bréf sem borist hafa til viðbótar frá verkafólki utan félagssvæðis Framsýnar sem óskar eftir inngöngu í félagið. Jafnframt var fjallað um úrskuð kjaradóms og ummæli framkvæmdastjóra FÍB sem talað hefur niður framkvæmdir við Vaðlaheiðagöng. Stjórnin taldi ástæðu til að álykta um þessi tvö atriði. Þá voru tekin nokkur erindi fyrir sem borist hafa félaginu auk þess sem gengið var frá metnaðarfullri sóknaráætlun í atvinnumálum sem unnin hefur verið í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Til stendur að ganga á fund ríkistjórnarinnar síðar í þessari viku þar sem gert verður grein fyrir áætluninni.

Ályktun
– um úrskurð Kjararáðs –

Framsýn- stéttarfélag telur að kjararáð hafi slegið tóninn í yfirstandandi kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins með því að færa hæstaréttardómurum og dómurum við Héraðsdóm Reykjavíkur á silfurfati 100 þúsund króna hækkun á mánuði.

Framsýn gerir ekki lítið úr því vinnuálagi sem er meðal dómara en það leynist víðar, ekki síst meðal starfsfólks sem starfar hjá opinberum stofnunum þar sem markvisst hefur verið skorið niður í mannahaldi með tilheyrandi álagi og tekjutapi fyrir starfsmenn.

Framsýn telur að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins geti ekki horft framhjá þessari staðreynd þegar gengið verður frá kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum. Slíkt væri móðgun við verkafólk. Fólki sem er í dag ætlað að skrimta af 165 þúsund krónum á mánuði sem er langt undir nýlegum viðmiðum um framfærsluþörf.

Framsýn tekur undir orð BSRB sem fram koma í nýlegri ályktun sambandsins. Það er ólíðandi að á meðan ríkisvaldið fæst ekki til að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn sína skuli kjararáð hækka laun dómara.

Þá hvetur Framsýn önnur stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands til að styðja kröfu félagsins um 200.000,- króna lágmarkslaun fyrir launþega landsins þegar í stað.

Bókun:
Stjórn Framsýnar, stéttarfélags tekur heilshugar undir með stjórn Eyþings er viðkemur sérkennilegum yfirlýsingum Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) varðandi fyrirhuguð Vaðlaheiðagöng og arðsemi þeirra. Þess má geta að innan Framsýnar eru um 2000 bílstjórar sem sumir hverjir eru félagsmenn í FÍB. Félagsmenn FÍB á landsbyggðinni hljóta að velta fyrir sér tilgangi félagsins þegar forsvarsmenn þess vinna beinlínis gegn þeirra hagsmunum eins og þessar yfirlýsingar staðfesta.“

Í yfirlýsingu Eyþings segir:
„Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær, þriðjudag, var viðtal við Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng. Við ýmis sjónarmið og fullyrðingar framkvæmdastjórans gerir stjórn Eyþings, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum eftirfarandi athugasemdir:“

„Runólfur telur að eingöngu útreikningar á slysatíðni, umferðarþunga og arðsemi framkvæmda eigi að liggja til grundvallar ákvörðunum þegar verja á takmörkuðu fé til vegaframkvæmda. Stjórn Eyþings er sammála að þeir útreikningar verða að liggja til grundvallar, en áréttar jafnframt að fleiri og ekki síður mikilvægar breytur þurfa einnig að liggja til grundvallar slíkum ákvörðunum.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Hér eru byggðir dreifðar. Það er ljóst að engar samgöngubætur geta orðið á landsbyggðinni eigi íbúafjöldi að liggja nær eingöngu til grundvallar slíkum ákvörðunum. Verulegur hluti þjóðarframleiðslunnar kemur frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna finnst okkur, sem búum utan höfuðborgarsvæðisins mikilvægt að njóta afrakstrar erfiðisins, t.d. í formi viðunandi samgangna. Góðar og öruggar samgönguæðar stuðla m.a. að þjóðhagslegum sparnaði og auknum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins í heild.

Fyrir forsvarsmann heildarsamtaka allra bifreiðaeigenda á landinu er mikilvægt að gleyma ekki að af hverjum tveimur krónum, sem íbúar í Norðausturkjördæmi greiða í skatta, lætur nærri að aðeins ein króna skili sér til baka í formi framlaga til nauðsynlegrar grunnþjónustu, vegaframkvæmda og annarra sameiginlegra þarfa. Þeirri krónu, sem eftir verður á höfuðborgarsvæðinu, er varið til þjónustu og uppbyggingar innviða á því svæði. Gleymum ekki að landsbyggðin aflar þjóðarbúinu mun meiri tekna en hún fær notið til sameiginlegra verkefna í heimabyggð.

En fleira þarf að hafa í huga þegar ákveðið er að ráðast í framkvæmdir á borð við Vaðlaheiðargöng eða aðrar samgöngubætur. Hverju mannsbarni á Norðurlandi er kunnugt um hvílíkur vegatálmi Víkurskarðið getur orðið. Um skarðið fara á annað þúsund bíla á sólarhring. Víkurskarð er lífæð milli landshluta. Þar hafa mannskaðar og slys orðið enda vegurinn stórhættulegur í viðsjárverðum veðrum. Víkurskarðið er þó eina leið Þingeyinga til að sækja þjónustu, svo sem bráða- og sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði. Samdráttur og niðurskurður á framlögum til opinberrar þjónustu, ekki síst heilbrigðisþjónustu, knýr beinlínis á um bættar samgöngur til að tryggja megi öryggi íbúa hinna dreifða byggða á Norðausturlandi.

Þau sjónarmið, sem framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda lýsti, vekja þá spurningu hvort FÍB hafi í heiðri hagsmuni allra bifreiðaeigenda á landinu, eða eingöngu hagsmuni þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Að mati stjórnar Eyþings er forkastanlegt að hagsmunasamtök allra bíleigenda landsins skuli leggja slíkt mat á arðsemi Vaðlaheiðarganga sem framkvæmdastjóri FÍB hefur lýst. Félagsmenn á landsbyggðinni hljóta að velta fyrir sér tilgangi félagsins.“

Deila á