Alþýðubandalagið – bandalag alþýðunnar

Eins og fram hefur komið hafa áherslur stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands verið nokkuð ólíkar varðandi kjaraliðina og er sambandið klofið hvað það varðar í nokkra parta. Þrjú félög Starfsgreinasambandsins eru innan Flóabandalagsins, Hlíf, Efling og Sjómanna- og verkalýðfélags Keflavíkur. Þá hafa þrjú önnur félög klofið sig út úr Starfsgreinasambandinu, Framsýn, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Þessi þrjú stéttarfélög hafa tekið upp samstarf um að vinna saman að kjarasamningsgerð varðandi þá kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið hafði áður umboð fyrir. Sem dæmi má nefna að fulltrúar félaganna munu verða í Reykjavík næsta fimmtudag þar sem fundað verður með Samtökum atvinnulífsins um kaup og kjör félagsmanna þessara félaga. Gárungarnir voru ekki lengi að búa til nafn á þetta bandalag. Þeir sögðu þetta bandalag alþýðunnar þar sem mest væri hlustað á skoðanir þessara félaga sem auk þess nytu mikillar virðingar út á við. Bandalagið gengur því undir nafninu Alþýðubandalagið – bandalag alþýðunnar.

Deila á