Megn óánægja með ummæli forsvarsmanna Afls og Drífanda

Starfsmenn fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslu Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn komu saman til fundar í gærkvöldi til að fara yfir samkomulag þeirra við Ísfélagið um breytingar á sérkjörum starfsmanna sem undirritað var síðasta þriðjudag hjá ríkissáttasemjara. Bræðslumenn voru ánægðir með samkomulagið og hrósuðu samninganefndinni fyrir vel unnin störf í þágu starfsmanna. Hins vegar kom fram megn óánægja með ummæli forsvarsmanna samninganefnda starfsmanna Afls og Drífanda í garð starfsmanna á Þórshöfn. Ákveðið var að senda út yfirlýsingu frá starfsmönnum þar sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar við ummælin sem eru afar ómakleg svo ekki sé meira sagt.
Yfirlýsing
– Ummæli forsvarsmanna stéttarfélaganna Afls og Drífanda fordæmd –

Starfsmenn fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn fordæma harðlega yfirlýsingar forsvarsmanna samninganefnda Afls og Drífanda um að þeir hafi brugðist bræðslumönnum á Austurlandi og í Vestmannaeyjum í þeirra kjaradeilu og því hafi ekkert orðið úr boðuðu verkfalli.

Eins og fram kemur í yfirlýsingu á heimasíðu Afls, þá var það ákvörðun stéttarfélaganna Afls og Drífanda að standa tvö að samningagerð fyrir bræðslumenn, það er án aðkomu annarra stéttarfélaga. Á síðari stigum óskuðu þau eftir því að starfsmenn ÍV á Þórshöfn færu í samúðarverkfall kæmi til verkfalls meðal starfsmanna í bræðslum á þeirra félagssvæðum.

Af hverju félögin leituðu ekki eftir víðtæku samstarfi í upphafi er óskiljanlegt með öllu. Þannig hefðu bræðslumenn um land allt verið í góðri stöðu til að knýja fram sanngjarnar launahækkanir.

Afstaða bræðslumanna á Þórshöfn var skýr. Markmiðið var að ná fram kjarasamningi um kaup og kjör starfsmanna enda Verkalýðsfélag Þórshafnar með sjálfstæðan kjarasamning. Þegar formleg beiðni kom með bréfi frá Afli og Drífanda um samúðarverkfall voru viðræðurnar á Þórshöfn á viðkvæmu stigi sem leiddu til þess að gengið var frá sérkjörum starfsmanna með samkomulagi þriðjudaginn 15. febrúar. Þess vegna töldu starfsmenn ekki rétt að boða til samúðarverkfalls að svo stöddu.

Hins vegar var þeim skilaboðum komið skýrt á framfæri við forsvarsmenn Ísfélags Vestmannaeyja að komið yrði í veg fyrir allar landir annarra skipa en þeirra sem að staðaldri hafa landað á Þórshöfn og eru í eigu Ísfélags Vestmannaeyja.

Einnig var ljóst að hefðu stéttarfélög bræðslumanna í Vestmannaeyjum og á Austurlandi staðið við boðað verkfall ætluðu bræðslumenn á Þórshöfn að taka fyrir verkfallsboðun innan sinna raða.

Þess vegna er öllum yfirlýsingum um samstöðuleysi bræðslumanna á Þórshöfn vísað til föðurhúsanna og kallað eftir faglegri vinnubrögðum í stað upphrópana í fjölmiðlum!

Deila á