Fundað með SA

Samninganefnd Framsýnar átti sinn fyrsta fund með Samtökum atvinnulífsins í gær um gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn Framsýnar á almennum vinnumarkaði. Samningsumboð félagsins var áður í höndum samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands en á aukaaðalfundi Framsýnar, sem haldinn var þann 2. febrúar sl., var samþykkt samhljóða að afturkalla umboðið og semja beint við Samtök atvinnulífsins. Í framhaldinu óskaði félagið eftir viðræðum við SA sem hófust formlega með þessum fundi.

Á fundinum lagði samninganefndin fram kröfugerð Framsýnar þar sem fjallað var annars vegar um kjarabætur og hins vegar um atvinnumál í Þingeyjarsýslum. Kröfur félagsins um kjarabætur eru eftirfarandi:

Megináherslur samninganefndar Framsýnar- stéttarfélags f.h. félagsmanna í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins í febrúar 2011.

1. Meginmarkmið
a) Að endurheimta glataðan kaupmátt frá upphafi efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008.
b) Að efla atvinnulífið svo hægt verði að fjölga störfum og minnka atvinnuleysið.
c) Að tryggja þeim lægst launuðu hækkanir umfram þá tekjuhærri í krónutölu.
d) Að vinna að efnahagslegum stöðugleika í þjóðfélaginu.
e) Að tekið verði með skipulögðum hætti á skuldavanda heimilanna í landinu.
f) Að stjórnvöld hækki persónuafsláttinn og geri auk þess breytingar á tekjuskattskerfinu í þágu hinna lægst launuðu. Auki þannig kaupmátt þeirra launa.

2. Launakröfur
a) Að almennar launahækkanir komi til framkvæmda 1. desember 2010 og taki mið af neysluviðmiðum sem lögð hafa verið fram af Velferðarráðherra.
b) Að lágmarkslaun verði kr. 200.000,- fyrir fullt starf. Launataxtar taki mið af því.
c) Að sérstök áhersla verði á hækkun launa hjá starfsfólki í útflutningsgreinum.
d) Að kaupaukar/bónusgreiðslur hækki í samræmi við launabreytingar.
e) Að orlofs- og desemberuppbót hækki í samræmi við launabreytingar.
f) Starfsheitum sem ekki er þegar raðað í launatöflu verði fundinn staður í töflunni s.s. sorphirðumönnum.

3. Sérmál
a) Að samningsaðilar SA/Framsýn setjist yfir þau sérmál sem snúa að félagsmönnum Framsýnar samkvæmt framlögðum tillögum SGS sem félagið stendur að.

4. Aðkoma stjórnvalda/SA-ASÍ
a) Að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands vinni að því með Framsýn að þeim tækifærum sem eru til staðar til að efla atvinnulífið í Þingeyjarsýslum verði hrint í framkvæmd. Sjá meðfylgjandi tillögur.
b) Að stjórnvöld hætti að þvælast fyrir góðum kostum í atvinnuuppbyggingu samanber uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.
c) Að stjórnvöld tryggi efnahagslegan stöðugleika svo fyrirtæki og heimilin í landinu geti þrifist með eðlilegum hætti.
d) Að stjórnvöld myndi á ný traust við fólkið í landinu með það að markmiði að halda sköttum og álögum í lágmarki, ekki síst á lágtekjufólk, öryrkja og aldraða.

Vel fór á með fundarmönnum og var ákveðið að næsti samningafundur Framsýnar og SA verði haldinn á næstunni.

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar og Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður afhenda Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins kröfugerð Framsýnar. Með þeim á fundinum var einnig Snæbjörn Sigurðarson starfsmaður Framsýnar.

Deila á