Framsýn hefur óskað eftir fundi með Vinnumálastofnun og lögfræðingum félagsins í næstu viku þar sem félagið telur ólöglegt að Vísir hf., beini starfsmönnum fyrirtækis á atvinnuleysisbætur frá og með 1. maí í stað þess að greiða þeim kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest.
Það er þeim starfsmönnum sem munu ekki flytja sig um set til Grindavíkur. Eins og fram hefur komið ákvað fyrirtækið Vísir hf. að loka starfstöð fyrirtækisins á Húsavík með mánaðar fyrirvara og var síðasti vinnsludagur í fyrirtækinu síðasta fimmtudag.
Forsvarsmenn Framsýnar munu funda með lögfræðingum félagsins í næstu viku og ákveða næstu skref í deilu félagsins við fyrirtækið Vísir vegna starfsloka starfsmanna. Einnig verður fundað með Vinnumálastofnun. Reiknað er með að fundirnir verði á miðvikudaginn.