Hvað gengur forsetanum til?

Hvað fær forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson, til að fara með fleipur og ósannindi? Í þættinum á Sprengisandi í gær voru kjaraviðræður SA og ASÍ sem enduðu með undirritun kjarasamningsins 21. desember til umræðu. Gylfi var annar tveggja gesta í þættinum um kjaramál. 

Ég vil gera sérstakar athugasemdir við tvö atriði, fyrir utan skattatillögur og ummæli forsetans um að láglaunafólk hafi hækkað umtalsvert umfram aðra hópa. Í raun fékk láglaunafólk tæplega 10.000 króna hækkun á meðan forseti ASÍ og hans líkir fengu um 33.000 króna hækkun m.v. að þeir hafi um 1,2 milljónir í mánaðarlaun. Varla þarf hagfræðimenntun til að reikna út, hvor stendur betur eftir undirskrift samningsins eða er það svo? 

Þegar öllu er á botninn hvolft lifir enginn á % hækkunum heldur á raunverulegum krónum í vasanum. Sem dæmi getur láglaunamaðurinn aðeins  keypt  79 lítra af mjólk á mánuði fyrir launahækkunina meðan forseti ASÍ getur keypt 267 lítra af mjólk m.v. núverandi verðlag á mjólkurlítranum. Svo ekki sé talað um snillingana hjá Samtökum atvinnulífsins sem glaðir skrifuðu undir kjarasamninginn. Sé tekið mið af launakjörum miðlungs stjórnarmanns í SA getur hann keypt 667 lítra af mjólk fyrir launahækkun sína. Og þetta kalla menn sérstaka láglaunaaðgerð. Þess utan fengu forsetinn, forsvarsmenn SA og aðrir hátekjumenn verulegar skattalækkanir á meðan láglaunamaðurinn stendur í stað og greiðir sömu skatta áfram eftir sem áður. 

Einnig vakti athygli mína í þættinum að ágætur þáttastjórnandi sá ekki ástæðu til að kalla eftir skýringum á tillögum forsetans í skattamálum sem miðuðu að því að skilja þá lægst launuðu eftir, fólk með tekjur innan við kr. 250.000 á mánuði. 

Þessi málflutningur er óskiljanlegur með öllu og mikil skömm fyrir forsetann og hans lærisveina sem kvarta sáran yfir því þessa dagana að fá ekki nægjanlegt pláss í fjölmiðlum til að útskýra mál sitt. Miðað við málflutning forsetans væri best fyrir hann að hafa vit á því  að segja sem minnst og hlusta á fólkið í landinu í stað þess að fara endalaust með fleipur. Á þingi ASÍ fyrir nokkrum árum var forseta  bent á að hann mæti gera meira að því að hlusta eftir skoðunum fólksins í landinu. Hann sagðist hafa skilning á því og skyldi hafa það að leiðarljósi. Því miður logar ekki á því leiðarljósi. Þess í stað talar hann endalaust niður til láglaunafólks innan sambandsins og forystumanna þeirra sem vilja rétta hlut þeirra. 

Auk þessa geri ég alvarlegar athugasemdir við eftirfarandi atriði: 

Í fyrsta lagi: 

Gylfi sagði í viðtalinu að við fimmmenningarnir hefðum vitað í nóvember í hvað stefndi, það er samræmda launastefnu og skilur því ekki af hverju við drógum ekki samningsumboðið frá SGS þá þegar til baka. Veit Gylfi eitthvað sem við vitum ekki? Því verður formaður Starfsgreinasambands Íslands, Björn Snæbjörnsson, að svara. Ég reikna ekki með því að hann vilji sitja undir svona yfirlýsingu.  

Nálgunin er athyglisverð hjá forsetanum þar sem samninganefnd SGS ákvað á fundi 17. desember að leggja 18. milljónir í auglýsingaherferð í byrjun janúar til að vekja athygli landsmanna á kjörum og stöðu okkar fólks. Þá þegar var búið að koma á fót aðgerðarhópi sem átti að skipuleggja aðgerðir tækist ekki að semja á næstu vikum. Í lok fundarins var ákveðið að samninganefndin færi í jólafrí þar sem ekkert væri að gerast í viðræðum við SA. Er von að spurst sé hvað á forsetin við með því að segja að við, fimmmenningarnir, hefðum átt að vita betur í nóvember? Svaraðu því, Gylfi Arnbjörnsson, án þess að vera með yfirklór og ósannindi. 

Það kom okkur hins vegar á óvart að vera boðaðir skyndilega til fundar í Reykjavík þann 20. desember með nánast engum fyrirvara. Þá var okkur tjáð að forseti ASÍ og ráðgjafar hans hefðu setið næturlangt við að móta kjarasamning sem okkur var ætlað að skrifa undir eftir skoðun. Við fimmmenningarnir mótmælum þessum vinnubrögðum og neituðum að endingu að skrifa undir kjarasamning sem lá fyrir rétt um sólarhring síðar. Reyndar voru talsmenn tveggja stéttarfélaga ekki á staðnum og hefur nú annað félagið í yfirlýsingu tekið undir með félögunum fimm og mótmælt gjörningnum harðlega.  

 Þess má geta að nokkrir formenn sem þrátt fyrir mikla óánægju með samninginn tóku ákvörðun um að skrifa undir hann,  forðuðust myndatökur og gengu á dyr án þess að fá sér vöfflu og rjóma með forystumönnum ASÍ og SA sem hertóku vöffluborðið enda ánægðir með afrekið. 

Menn voru nefnilega óánægðir með samninginn, en skrifuðu samt undir hann og gengu síðan út. Það er rétt að halda þessu til haga í umræðunni enda niðurstaðan langt frá samþykktri kröfugerð SGS og ályktunum sem samþykktar voru á þingi sambandsins í haust. Fimmmenningarnir stóðu fast á því að formenn aðildarfélaga SGS ættu að standa í lappirnar og framfylgja samþykktri kröfugerð og ályktunum þingsins. Því miður brást samstaðan eftir góðan undirbúning sem var til fyrirmyndar hjá sambandinu. Virkilega sorglegt. 

Í öðru lagi:

Í þættinum á Sprengisandi kom forsetinn einnig inn á kröfugerð Starfsgreinasambandsins sem fól í sér 20.000 króna hækkun á grunntaxtana. Okkar umbjóðendur eru á töxtum frá 192.000 krónum upp í 228.000 krónur á mánuði. Hann talaði þessa tillögu niður og taldi hana framkalla óðaverðbólgu og efnahagslegt hrun. Í hæðni talaði hann um að þessi leið hefði gefið honum mun meira en sú leið sem farin var eða þrefalt meira en láglaunamanninum. 

Enn og aftur skilur maður ekki blessaðan manninn, veit hann ekki að utanvega akstur er bannaður? Það er hlutverk Starfsgreinasambands Íslands að verja þá sem eru innan sambandsins og njóta þess vafasama heiðurs að vera á lægstu kauptöxtum launþega á Íslandi. Starfsgreinasambandið semur ekki fyrir hálaunamenn eins og Gylfa Arnbjörnsson. Ef svo væri, væri hann örugglega á mun lægri launum í dag enda ná kauptaxtar sambandsins aðeins upp í kr. 227.936. Farðu rétt með Gylfi Arnbjörnsson, annað sæmir þér ekki sem forseta ASÍ. 

Niðurlag:

Sá ágæti fyrrverandi forseti ASÍ, Grétar Þorsteinsson, leitaði allra leiða á sínum árum sem forseti sambandsins til að leiða menn saman með ólíkar skoðanir og ná fram sáttum. Það kom fyrir að hann hafði samband við mig ef hann var ekki sammála mínum málflutningi eða ef hann vildi hæla félaginu sem ég stýri fyrir eitthvað sem honum fannst vera til fyrirmyndar. Hann kunni vel til verka sá ágæti maður. Það sama verður ekki sagt um núverandi forseta sem notar hvert tækifæri til að skvetta bensíni á eldinn, helst tvöföldum skammti svo logi glatt í hreyfingunni. Ég skora á forsetann að hætta þessu þegar í stað og hlusta á raddir fólksins í landinu í stað þess að leiða umræðuna um niðurrif hreyfingarinnar og máttleysi hennar. 

Við byggjum best upp sterka keðju fólks til góðra verka í framtíðinni með því að fylgja eftir skoðunum okkar umbjóðenda. Til þess vorum við kjörin til forystu og eigum því ekki að eyða tímanum í að karpa innbyrðis þar sem það er ekki vænlegt til árangurs.

Aðalsteinn Á.  Baldursson formaður  Framsýnar, stéttarfélags

Deila á