Lög fyrir Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum
Reglugerð fyrir Sjúkrasjóð Þingiðnar
Reglugerð fyrir Orlofssjóð Þingiðnar
Reglugerð fyrir Vinnudeilusjóð Þingiðnar
Reglugerð fyrir Fræðslusjóð Þingiðnar
Starfsreglur Fræðslusjóðs Þingiðnar
——————————————————————————————————————————————-
Lög fyrir Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum
I. KAFLI – Nafn félagsins og hlutverk
1. grein – Heiti og starfssvæði
Stéttarfélagið heitir Þingiðn. Starfssvæði félagsins nær yfir sveitarfélög er tilheyra Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu, heimili þess og varnarþing er á Húsavík. Félagið er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga og Alþýðusambandi Íslands.
2. grein – Tilgangur
Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því meðal annars:
a) Að sameina alla fagmenntaða starfsmenn sem vinna í byggingar- og tréiðnaði, bílgreinum, málmiðnaði og öðrum þeim greinum í iðnaði sem fallið geta undir þessi lög.
b) Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem: með því að semja um kaup og kjör þeirra, bættan aðbúnað á vinnustað og gæta þess að ekki sé gengið á iðnréttindi þeirra
c) Að standa vörð um réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnumálum.
d) Að aðstoða félagsmenn í atvinnuleit, ef þeir óska þess.
e) Stuðla að verklegum framförum og tryggja eftir megni, að félagsmenn kunni sem best við sitt starf og hafi sem víðtækasta þekkingu á öllu er að því lýtur.
f) Að bæta iðnlöggjöfina og vera á verði um að réttindi þau, sem hún veitir lærðum iðnaðarmönnum og iðnnemum, verði ekki skert.
g) Að hafa vinsamlegt samstarf og samvinnu við önnur stéttarfélög innan þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að.
II. KAFLI – Inntökuskilyrði og úrsagnir
3. grein – Innganga
Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
a) Hafa sveinsbréf í húsa-, húsgagna-, skipasmíði, húsgagnabólstrun, múraraiðn, málaraiðn, pípulögnum, veggfóðrun, málmiðnaði, bílgreinum eða löggilt iðnbréf, útgefið samkvæmt iðnaðarlögum.
b) Stunda iðnnám í þeim iðngreinum sem upp eru taldir í a-lið hér að framan samkvæmt lögum um iðnfræðslu.
c) Standa ekki í óbættum sökum við félagið, eða önnur stéttarfélög sem viðkomandi hefur verið í.
d) Inntökuskilyrði skal vera skrifleg og rituð á þar til gerð eyðublöð sem liggja frammi á skrifstofu félagsins.
e) Inntökubeiðni skal fylgja staðfesting á fagkunnáttu eða námssamningur.
f) Séu ofanskráð skilyrði fyrir hendi skal stjórn félagsins eða lögmætur fundur í félaginu veita viðkomandi inngöngu í félagið.
g) Við inngöngu í félagið öðlast umsækjendur öll félagsréttindi samkvæmt kjarasamningum, lögum og reglugerðum sjóða félagsins.
h) Óheimilt er að taka sem aðalfélaga mann sem er félagsbundinn í öðru stéttarfélagi eða samtökum iðnmeistara og/eða atvinnurekenda.
Hafni stjórnarfundur inntökubeiðni hefur umsækjandi rétt til að vísa inntökubeiðni til félagsfundar. Synji félagsfundur umsækjanda um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til miðstjórnar Samiðnar og ASÍ.
4. grein – Aukafélagar
Aukafélagar geta orðið þeir sem uppfylla 3. gr. laganna og greiða til félagsins en hafa ekki sótt skriflega um inngöngu.
Aukafélagar greiða fullt félagsgjald, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en ekki atkvæðisrétt. Auk þess njóta þeir sjóða félagsins til jafns við aðra félagsmenn, nema öðruvísi sé ákveðið í reglum sjóða.
Aukafélagar hafa rétt til vinnu, næst fullgildum félagsmönnum, og njóta allra þeirra kaupkjara, sem samningar félagsins ákveða. Trúnaðarmannaráð getur sett frekari reglur um aukafélaga á hverjum tíma.
5. grein – Úrsögn
Úrsögn getur því aðeins átt sér stað, að viðkomandi sé skuldlaus við félagið.
Úrsögn skal vera skrifleg og gerð grein fyrir ástæðu hennar, hún skal afhendast formanni félagsins eða skrifstofu ásamt félagsskírteini úrsegjanda.
Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða trúnaðarmannaráði, og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst.
Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmeðlima í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.
6. grein – Hagsmunir
Enginn má vera í félaginu, ef hagsmunir hans standa nær hagsmunum launagreiðenda en verkafólks að áliti félagsfundar.
Ágreiningi um svona mál má hvor aðili sem er skjóta undir úrskurð miðstjórnar Samiðnar og ASÍ, en úrskurður félagsfundar gildir þar til miðstjórn Samiðnar eða ASÍ hefur úrskurðað annað.
III. KAFLI – Réttindi félagsmanna og skuldbindingar
7. grein – Réttindi félagsmanna
Réttindi fullgildra félagsmanna eru eftirfarandi:
a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum, kjörgengi til trúnaðarstarfs innan félagsins og þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að og réttur til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um þá kjarasamninga, sem félagið á aðild að og viðkomandi félagsmaður vinnur eftir.
b) Forgangsréttur til starfa í samræmi við menntun og ákvæði kjarasamninga.
c) Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við það, sem nánar er ákveðið í reglugerðum þeirra.
d) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum, eftir því sem samþykktir og reglu-gerðir kveða á um.
e) Réttur til að sækja námskeið á vegum félagsins eða þeirra samtaka, sem það er aðili að.
f) Réttur til aðstoðar vegna vanefnda launagreiðenda á kjarasamningum og til annarrar þeirrar þjónustu sem félagið veitir hverju sinni, þ.m.t. lögfræðiþjónustu.
g) Réttur til lögfræðilegrar aðstoðar vegna bótamála í sambandi við vinnuslys eða atvinnusjúkdóma.
Starfsmenn félagsins, starfsmenn og forystumenn þeirra heildarsamtaka, sem það á aðild að, skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, þótt þeir séu ekki félagsmenn.
8. grein – Félagsskírteini
Hverjum félagsmanni, skal afhent félagsskírteini, sem hann hafi alltaf handbært svo hann geti sannað félagsréttindi sín.
Hverjum manni er skylt að sýna skírteini:
a) Við inngöngu á fundi félagsins, sé þess óskað.
b) Á vinnustað, ef eftirlitsmaður félagsins eða félagsbundinn samstarfsmaður óskar þess.
9. grein – Félagsgjöld
a) Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi og skulu þau innheimt, sem tiltekinn hundraðshluti af heildarlaunum. Aðalfundur skal einnig ákveða það lágmarksgjald sem félagsmenn þurfa að greiða til að halda fullum félagsréttindum. Tillögur um lækkun félagsgjalda ná því aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar fundarmanna á aðalfundi, séu því samþykkir.
b) Hver sá félagsmaður, sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira, nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem: atkvæðaréttar, kjörgengis, né greiðslna úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi fær hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.
c) Skuldi félagsmaður eitt ár eða meira, missir hann öll félagsréttindi.
d) Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagaskrá, þó er félagsstjórn heimilt að gefa eftir félagsgjald fyrir þann tíma, sem viðkomandi var frá störfum vegna veikinda og atvinnuleysis.
e) Félagsmaður sem hættir störfum eftir 67 ára aldur eða vegna veikinda skal vera gjaldfrír frá þeim tíma sem hann missir laun en halda öllum áunnum réttindum í félaginu.
f) Ekki skal innheimta félagsgjald fyrir tímabil sem félagsmaður hefur greitt félagsgjald til annars stéttarfélags enda framvísi hann kvittunum fyrir greiðslu.
Heiðursfélagar halda alltaf fullum félagsréttindum og ber ekki skylda til að greiða félagsgjöld.
10. grein – Skuldbindingar félagsmanna
a) Að hlýta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum og stuðla að því að aðrir geri það.
b) Að greiða félagsgjöld skilvíslega.
c) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Enginn getur, nema af frambornum ástæðum sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins.
d) Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn, sem eiga rétt til inngöngu í félagið, gerist félagsmenn.
e) Að veita stjórn félagsins upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilyrði á þeim vinnustöðum, sem þeir vinna á eða hafa unnið á.
f) Að veita starfsmönnum, stjórn eða formanni félagsins upplýsingar, verði félagsmaður þess vís að lög félagsins, eða samningar þess séu brotnir.
Aukafélagar skulu hafa sömu skyldur og aðalfélagar, að öðru leyti en tekur til ákvæða c-liðar.
11. grein – Önnur vinna
Nú stundar félagsmaður aðra atvinnu en um getur í a-lið 3. greinar um stundarsakir, eða allt að einu ári, skal hann þá greiða fullt gjald til félagsins.
Byrji félagsmaður ekki aftur innan eins árs að vinna í iðn sinni, missir hann rétt til að vera lengur í félaginu, sé ekki um veikindi, barnsburðarleyfi eða atvinnuleysi að ræða.
Undanþegnir þessu ákvæði eru þó þeir menn, sem vinna beint í þágu félagsins, enda greiði þeir sömu gjöld og aðrir fullgildir félagsmenn.
12. grein – Refsiákvæði
Ef félagsmaður gerist sekur um brot á lögum félagsins eða samþykktum, getur stjórn félagsins beitt eftirfarandi refsiákvæðum:
a) Áminningu innan félagsins.
b) Sviptingu vinnuréttar um óákveðinn tíma.
c) Svipt félagsmann tillögurétti, fundarsetu og rétti til að gegna trúnaðarstörfum í þágu félagsins, um ákveðinn tíma.
d) Vikið félagsmanni úr félaginu um lengri eða skemmri tíma.
Úrskurði félagsstjórnar má skjóta til félagsfundar, sem hefur endanlegt úrskurðarvald, og er bindandi fyrir alla félagsmenn. Slík atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg.
Heimilt er viðkomandi félagsmanni að gera grein fyrir máli sínu á félagsfundi.
Áfrýja má slíkri niðurstöðu til miðstjórnar Samiðnar og ASÍ.
13. grein – Verkfall
Eigi félagið í verkfalli, sem löglega hefur verið til boðað, ber hverjum félagsmanni að leggja skilyrðislaust niður vinnu, sem hann tekur greiðslu fyrir hjá öðrum, nema til komi sérstakt leyfi félagsstjórnar. Verði félagsmaður uppvís að broti gegn þessari grein, ber stjórn félagsins skylda til að sjá um að refsiákvæðum 12. greinar sé beitt.
14. grein – Félagsmanni vikið úr starfi
Óheimilt er félagsmönnum að hefja vinnu þar sem félagsmanni hefur verið vikið úr starfi, nema þær ástæður liggi fyrir, sem stjórn félagsins tekur gildar.
Nú leggur félagsmaður niður vinnu eftir beiðni stjórnar, ber þá stjórn eða starfsmönnum félagsins að aðstoða hann við að komast í vinnu á ný.
IV. KAFLI – Stjórn, trúnaðarmannaráð, skoðunarmenn reikninga, endurskoðendur og nefndir.
15. grein – Stjórn
Stjórn félagsins skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Varastjórn félagsins skipa fjórir menn og gegna þeir stjórnarstörfum í forföllum eða fjarveru aðalstjórnarmeðlima og taka sæti í stjórninni í þeirri röð, sem þeir eru kosnir. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda.
16. grein – Starfsemi stjórnar
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli funda. Hún kallar saman félagsfundi, þegar hún telur ástæðu til, eða ef tíu félagsmenn óska þess og geta um ástæðu. Nýbreytni alla og meiriháttar mál skal stjórnin bera undir félagsfund, og getur hún því aðeins ráðið slíkum málum til lykta á eigin spýtur að félagsfundur hafi falið henni það með sérstakri samþykkt, nema annað sé ákveðið í lögum félagsins í einstökum atriðum. Stjórn félagsins skal jafnframt sjá um úthlutun úr sjúkrasjóði félagsins.
17. grein – Störf stjórnar
Formaður félagsins er fulltrúi þess og félagsstjórnar út á við. Hann er í forsæti á stjórnarfundum og semur dagskrá fyrir þá. Hann kallar saman stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundi. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins, og eftirlit með því að fylgt sé lögum þess og samþykktum í öllum greinum. Formaður undirritar bréf fyrir hönd félagsins, þó skal starfsmönnum félagsins heimilt að skrifa undir bréf með leyfi formanns. Varaformaður gegnir sömu störfum í forföllum formanns.
Ritari félagsins ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins, ásamt formanni. Myndataka og hljóðritun er heimil á fundum félagsins.
Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu í samráði við starfsmenn þess og eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Sjóði félagsins skal hann sjá um að séu geymdir á vöxtum í banka eða sparisjóði eða öðrum tryggilegum stað, eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Stjórnin ber öll ábyrgð á sjóðum félagsins í sameiningu.
18. grein – Reikningsár og endurskoðun
Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Stjórn félagsins er skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga félagsins og fjárreiður í lok hvers reiknisárs. Kjósa skal félaginu tvo félagslega skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Einnig skal kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu á aðalfundi.
19. grein – Fastanefndir
Aðalfundur getur samþykkt að kjósa fastanefndir sem starfa áralangt, þ.e. nefndir, sem starfa að nánar tilteknum málum, annað hvort sjálfstætt eða með stjórninni, eftir því sem aðalfundur ákveður.
Tala nefndarmanna skal standa á stöku. Sá sem flest atkvæði fékk skal kalla saman nefndina og kýs hún sér þá formann. Ef atkvæði eru jöfn, skal sá sem fyrst var stungið upp á, kalla nefndina saman til fyrsta fundar.
Um starfsemi nefnda, sem kosnar kunna að vera til þess að fjalla um ákveðin mál fer eftir ákvæðum, sem fundurinn setur. Stjórnin getur kallað nefnd saman og látið hana gefa skýrslu, ef henni þurfa þykir.
20. grein – Trúnaðarmannaráð
Trúnaðarmannaráð skal vera starfandi í félaginu, kosið eftir sömu reglum og stjórn.
Við kosningu í ráðið skal leitast við að velja félagsmenn sem víðast að af félagssvæðinu og sem jafnast úr iðngreinum.
Í ráðinu eiga sæti 6 félagsmenn og 4 til vara auk félagsstjórnar og varastjórnar, sem jafnframt er stjórn ráðsins.
Þegar mikilvæg mál liggja fyrir og stjórnin telur erfitt eða of tafsamt að ná saman félagsfundi, skal formaður kalla saman trúnaðarmannaráð og bera málið upp fyrir því.
Ákvarðanir, sem ráðið tekur, skulu vera jafngildar og teknar hefðu verið á félagsfundi. Þó skal leggja málið fyrir næsta félagsfund, sem aðrar ráðstafanir milli funda.
Trúnaðarmannaráð kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga en getur einnig kosið sérstaklega samninganefnd í því skyni, að eigin ákvörðun eða eftir ákvörðun félagsfundar. Við mikilvægar ákvarðanir í samningagerð ber samninganefnd að hafa fullt samráð við trúnaðarmannaráð og gæta þess í hvívetna að undirrita aldrei kjarasamninga eða aðarar skuldbindingar á sviði kjaramála án slíks fyrirvara og fyrirvara um atkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu ráðsins.
Lögmætir eru fundir ráðsins, sé helmingur þess mættur og meirihluti stjórnar og ræður meirihluti atkvæða ákvarðanatöku í trúnaðarmannaráði.
21. grein – Sjóðir félagsins
Sjóðir félagsins skulu vera:
a) Félagsjóður
b) Sjúkrasjóður
c) Orlofsjóður
d) Vinnudeilusjóður
e) Svo og aðrir sjóðir, sem stofnaðir kunna að verða.
Allir sjóðir félagsins skulu hafa sérstaka reglugerð, samþykkta á aðalfundi.
Breytingar á reglugerðum sjóða lúta sömu reglum og lagabreytingar.
Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans, hvernig það skuli ávaxtað og tryggt og hvernig honum skuli stjórnað.
Tekjur félagsins skiptist milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.
Stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á sjóðum félagsins.
22. grein – Félagsgjöld
Aðalfundur ákveður upphæð árgjalda og lágmarksgjald. Stjórn félagsins skal leggja fyrir aðalfund tillögur um upphæð þessara gjalda. Til þess að samþykkja tillögur um lækkun árgjalds þarf 2/3 greiddra atkvæða.
23. grein – Greiðsla fyrir nefndarstörf
Þeir félagsmenn, sem annast tímafrek störf fyrir félagið, og verða frá vinnu vegna þess, geta ef þeir óska fengið þann tíma greiddan, sem þeir eru frá vinnu, og er stjórninni heimilt að greiða slíka reikninga úr félagssjóði.
24. grein – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
V. KAFLI – Skrifstofa
25. grein – Hlutverk Skrifstofu stéttarfélaganna
Félagið rekur skrifstofu í samráði við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum, samkvæmt gildandi samstarfssamningi félaganna á hverjum tíma.
Skrifstofan annast daglegan rekstur, innheimtu félagsgjalda, annast greiðslur, færir reikninga félagsins og sjóða þess, svarar fyrirspurnum og leiðbeinir félagsmönnum um það sem viðkemur félagsmálum, aðstoðar félagsmenn til að ná rétti sínum, ritar bréf, heldur félagaskrá, safnar skýrslum fyrir stjórn félagsins og aðstoðar félagsmenn eftir mætti í atvinnuleit. Einnig ber skrifstofunni að fylgjast með að ófélagsbundnir eða réttindalausir vinni ekki í iðninni á félagssvæðinu.
VI. KAFLI – Allsherjaratkvæðagreiðsla
26. grein – Allsherjaratkvæðagreiðsla/póstkosning
Allsherjaratkvæðagreiðslu eða póstkosningu er skylt að viðhafa í félaginu ef:
a) Ákveða skal vinnustöðvun í félaginu.
b) Fram fer atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning.
c) Samþykkt er á félagsfundi.
d) Samþykkt er á trúnaðarmannaráðsfundi.
e) Þegar 15 félagsmenn krefjast þess skriflega.
f) Miðstjórn ASÍ eða stjórnir landssambanda fyrirskipa.
Kosningarétt við allsherjaratkvæðagreiðslu hafa aðeins þeir sem ekki skulda félagsgjöld fyrir meira en sex mánuði og þurfa að vera skuldlausir við áramót, þegar kosning fer fram.
27. grein – Allsherjaratkvæðagreiðsla
Allsherjaratkvæðagreiðsla getur aðeins farið fram um mál, sem lögð eru þannig fyrir, að hægt er að svara með „já“ eða „nei“, eða að kjósa megi milli tveggja eða fleiri tillagna, og skulu þá útbúnir greinilegir atkvæðaseðlar um málið, svo að kjósandi þurfi ekki annað en að krossa við „já“ eða „nei“ eða við eina tillöguna, ef fleiri eru en ein. Allsherjaratkvæðagreiðsla er úrslita ályktun í öllum málum félagsins.
Ef allsherjaratkvæðagreiðsla er viðhöfð, skal hún að öðru leyti fara fram samkvæmt reglugerð A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslu og lögum Samiðnar.
28. grein – Kjörstjórn
Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Kjörstjórn skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarmannaráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum A.S.Í. skipar miðstjórn A.S.Í. þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.
29. grein – Kjörnefnd
Í nóvember ár hvert, skal á félagsfundi kjósa kjörnefnd fyrir félagið. Þrír félagar skulu eiga sæti í kjörnefnd. Kjörnefnd gerir tillögur um félagsmenn í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta starfsár. Kjörnefnd er heimilt að láta fara fram könnun meðal félagsmanna, um hverjir eigi að gegna trúnaðarstöðum fyrir næsta starfsár. Könnunin skal vera skrifleg. Kjörnefnd skal hafa lokið störfum í síðasta lagi 31. janúar ár hvert. Tillögur kjörnefndar skulu vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins til 28. febrúar.
Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins fyrir 1. mars.
30. grein – Breytingartillögur
Komi fram breytingartillögur, skal trúnaðarmannaráð þegar í stað kjósa kjörstjórn, í samræmi við ákvæði reglugerðar A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur. Kjörstjórn fer með framkvæmd kosninga.
31. grein – Heildartillögur
Komi fram tvær eða fleiri heildartillögur skal merkja tillögu kjörnefndar með bókstafnum A, en aðrar tillögur með bókstöfunum þar á eftir, í þeirri röð sem þær bárust skrifstofu félagsins. Hafi komið fram breytingartillaga um félaga í einstakar trúnaðarstöður, skal kjósa milli allra, sem tillögur hafa verið gerðar um í hvert trúnaðarstarf fyrir sig og er sá réttkjörinn sem flest atkvæði hlýtur.
32. grein – Atkvæðagreiðsla um heildar- eða breytingartillögur
Hafi komið fram nýjar heildartillögur eða breytingartillögur skal fara fram atkvæðagreiðsla í samræmi við reglugerð A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur. Kjörstjórn getur einnig ákveðið að viðhafa póstatkvæðagreiðslu.
Komi engar breytingartillögur fram, né fleiri listar, teljast þeir félagar sem kjörnefnd hefur gert tillögu um sjálfkjörnir og skal kosningu þannig lýst á aðalfundi.
33. grein – Réttur til að taka þátt í atkvæðagreiðslu
Eftir að atkvæðagreiðsla hefur verið auglýst og kjörskrá lögð fram, má ekki veita nýjum félagsmönnum inngöngu í félagið með atkvæðisrétti, en þeir sem skulda geta öðlast atkvæðisrétt greiði þeir skuld sína að fullu.
34. grein – Talning atkvæða
Kjörstjórn sér um talningu atkvæða, að kjörfundi loknum og úrskurðar vafaatriði. Meðmælendur hvers lista eða tillögu eiga rétt á að hafa einn fulltrúa við talningu atkvæða.
VII. KAFLI – Fundir og lagabreytingar.
35. grein – Fundir
Fundi skal halda í félaginu þegar stjórninni þykir ástæða til, eða þegar 15 félagar krefjast þess skriflega, enda sé fundarefni tilgreint af þeim er kröfuna gera. Fundi skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara, með uppfestum auglýsingum eða á annan viðurkenndan hátt. Þó má í sambandi við vinnudeilur og kjarasamninga boða til funda með skemmri fyrirvara, ef brýna nauðsyn ber til. Fundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað. Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum félagsins. Vafaatriði um fundarsköp úrskurða fundir hverju sinni. Að öðru leyti fer fundarstjóri eftir því sem honum þykir best henta.
36. grein – Aðalfundur
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Aðalfundurinn skal boðaður með dagskrá, með minnst 7 sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Fastir liðir á dagskrá aðalfundar skulu vera þessir:
1) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
2) Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
3) Lýst kjöri stjórnar, varamanna í stjórn, trúnaðarmannaráðs og skoðunarmanna reikninga
4) Kosning til annarra stjórna og ráða sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir
5) Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
6) Lagabreytingar, ef tillögur þar um liggja fyrir
7) Ákvörðun félagsgjalds
8 Önnur mál
37. grein – Lagabreytingar
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og skal þess getið í fundarboði að tillaga um slíkt liggji fyrir fundi. Til þess að tillaga um lagabreytingu sé samþykkt þarf 2/3 greiddra atkvæða.
38. grein – Félagsslit
Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri alsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað félag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Það félag fær þá umráð eigna að fengnu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins. Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.
Þannig samþykkt á stofnfundi félagsins 17. desember 2000.
—————————————————————————————————–
Reglugerð fyrir Sjúkrasjóð Þingiðnar
- grein – Nafn sjóðsins, heimili og sjóðfélagar
1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum.
1.2 Sjóðfélagar eru þeir sem greitt er af til sjóðsins samkvæmt kjarasamningi og lögum nr. 19, frá 1. maí 1979.
1.3 Sjóðurinn er eign Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum. Heimili sjóðsins og varnþrþing er á Húsavík.
- grein – Markmið sjóðsins
2.1 Markmið sjóðsins er að greiða dagpeninga til félagsmanna, sem missa vinnutekjur, vegna sjúkdóma eða slysa.
2.2 Markmið sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum er snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga.
2.3 Sjóðnum er heimilt að greiða styrki eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.
- grein – Tekjur sjóðsins
3.1 Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979.
3.2 Vaxtatekjur og arður
3.3 Gjafir, framlög og styrkir
3.4 Aðrar tekjur, sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.
- grein – Stjórn og rekstur
4.1 Stjórn sjóðsins skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal skipuð þrem félagsmönnum og er formaður félagsins sjálfkjörinn formaður stjórnar sjóðsins og varaformaður í forföllum hans. Hinir tveir stjórnarmenn og þrír varamenn skulu kjörnir á aðalfundi með sama hætti og stjórn sjóðsins. Stjórn sjóðsins er á hverjum tíma heimilt að framvísa úthlutun úr sjóðnum til starfsmanna félagsins. Fundina skal bóka í sérstaka fundargerðarbók.
4.2 Sjóðnum skal stjórnað í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.
4.3 Sjóðstjórn setur sér starfsreglur og nánari reglur um úthlutun fjár úr sjóðnum.
4.4 Engar greiðslur úr sjóðnum, aðrar en þær sem tilteknar eru í reglugerðinni eru heimilar, og enga upphæð má greiða úr sjóðnum, aðrar en þær er varða daglegan rekstur, nema eftir bókaðri ákvörðun sjóðstjórnar.
4.5 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu fara með allar umsóknir og afgreiðslu úr sjóðnum sem trúnaðarmál.
4.6 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.
4.7 Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa samstarf um úthlutun og afgreiðslu bóta, við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Slíkt fyrirkomulag er þó háð samþykki stjórnar félagsins.
5. grein – Reikningar og endurskoðun
5.1 Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins.
5.2 Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu vera skráðar á nafn hvers sjóðfélaga.
5.3 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins ár hvert.
5.4Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3.mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær eru á hverjum tíma.
6. grein – Úttekt óháðra eftirlitsaðila
6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.
6.2 Að minnsta kosti fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins. Hann skal semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þess með ársreikningi sjóðsins.
6.3 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn getur staðið við skuldbindingar. Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund félagsins tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.
7. grein – Ávöxtun sjóðsins og eignir
7.1 Stjórn sjóðsins annast vörslu hans og ávöxtun á öruggan hátt, svo sem í ríkisskuldabréfum, skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs eða sveitarfélags, í bönkum og sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með fasteignaveði.
7.2 Heimilt er sjóðnum að eiga fasteignir undir starfsemi sína eða eiga í fasteignum, sem félagið á eða er meðeigandi í.
7.3 Sjóðnum skal heimilt að eiga íbúð/ir fyrir sjóðfélaga sem leita þurfa sér lækninga eða heilsubótar utan heimabyggðar.
7.4 Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna fari ekki í bága við markmið eða verkefni sjóðsins.
7.5 Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11. gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41. gr. laga ASÍ.
8. grein – Réttindi sjóðfélaga
8.1 Rétt til dagpeninga og styrkja úr sjóðnum öðlast þeir sem greitt er af til sjóðsins samfellt í að minnsta kosti 6 mánuði nema annað sé tiltekið í reglugerðinni.
8.2 Réttur til dagpeninga stofnast frá þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur. Réttur fellur niður þegar sjóðfélagi öðlast rétt til örorkugreiðslna/lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði. Sama á við þegar sjóðfélagi fær launagreiðslur eða ígildi þeirra vegna veikinda eða slysa frá tryggingafélagi.
8.3 Fari sjóðstjórn þess á leit við sjóðfélaga að hann leggi inn umsókn um örorkumat til Tryggingastofnunar og/eða lífeyrissjóðs er hann hefur verið frá störfum vegna veikinda í 6 mánuði samfellt eða lengur skal hann verða við þeirri ósk og veita sjóðstjórn upplýsingar um niðurstöður matsins.
8.4 Hafi sjóðfélagi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ og greitt til hans er hann hefur greiðslu til sjóðsins öðlast hann rétt skv. 9. grein.
9. grein – Samskipti sjúkrasjóða
9.1 Sjóðfélagi sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði annars stéttarfélags innan ASÍ, öðlast rétt til sjúkra- og slysadagpeninga hjá sjúkrasjóðnum eftir að hafa greitt í hann í einn mánuð, enda hafi hann fram að því sannanlega átt rétt hjá fyrri sjóðnum.
9.2 Vinni sjóðfélagi á fleirum en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu skal hann greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt.
9.3 Heimilt er að fresta greiðslu bóta þar til staðfesting annarra sjóða liggur fyrir um að sjóðfélagi hafi ekki sótt um greiðslur þar. Sjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa öðrum sjóðum yfirlit um bætur sem greiddar eru vegna sjóðfélagans, tegund og fjárhæð bóta.
9.4 Umsækjanda er skylt að leggja fram með umsókn sinni staðfestar upplýsingar um greiðslur frá öðrum sjóðum og veita aðrar nauðsynlegar upplýsingar um launagreiðslur að viðlögðum réttindamissi.
10. grein – Geymd réttindi
10.1 Sá sem gengur undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði félagsins endurnýjar bótarétt sinn þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð enda hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi.
10.2 Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda, heimils aðstæðna eða af öðrum gildum ástæðum.
10.3 Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði félagsins enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.
11. grein: Dagpeningar og styrkir
11.1 Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:
11.2Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum greiðast í 120 almanaksdaga (fjóra mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Við langvarandi veikindi sjóðsfélaga er sjóðstjórn heimilt að lengja greiðslutíma dagpeninga, ef hún telur brýna nauðsyn til og fjárhagur sjóðsins leyfir.
11.3 Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu sex mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
11.4 Dagpeningar í 90 almanaksdaga (þrjá mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð miðað við starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu sex mánuðum.
11.5 Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 330.000.- krónum miðað við greitt félagsgjald síðustu 12 mánaða. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga, börn eða aðrir aðstandendur. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.
11.6 Dagpeninga skv. 11.2, 11.3 og 11.4 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu sex mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 11.2, 11.3 og 11.4 sem þó sé ekki lægra en kr. 461.239.000.- á mánuði. (miðað við 8. júní 2016)
11.7 Réttur skv. 11.2, 11.3 og 11.4 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.
11.8 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga í formi forvarnar- og endurhæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar.
11.9 Styrkir til stofnana og félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni.
11.10 Við ráðstöfun fjármuna skv. 11.8 og 11.9 skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.
11.11 Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.
11.12 Dagpeningar greiðast ekki þegar um varanlega örorku eða ellihrumleika er að ræða, en stjórn sjóðsins er heimilt að verja ákveðinni upphæð, sem ákveðin er hverju sinni, til þeirra sem haldnir eru varanlegri örorku eða ellihrumleika og ekki eiga rétt til dagpeninga. Sú úthlutun skal fara fram í desembermánuði ár hvert.
11.13 Dagpeningar og aðrir styrkir skulu greiddir út mánaðarlega eða samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma.
12. grein – Frávik frá reglum
12.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að víkja frá reglum um bótarétt ef sérstaklega stendur á fyrir sjóðfélaga, svo sem ef hann á í verulegum fjárhagserfiðleikum, hefur ekki stundað fulla vinnu síðastliðna sex mánuði eða önnur atvik réttlæta bótagreiðslur.
13. grein – Forvarnir og endurhæfingarstyrkir
13.1 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðfélaga vegna forvarna, heilsueflingar og endurhæfingar. Skulu fjárhæðir og viðmiðanir ákveðnar í sjóðstjórn.
14. grein – Styrkir til stofnana og félagasamtaka
14.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita stofnunum og félagasamtökum styrki sem snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga. Styrkir samkvæmt þessu ákvæði mega ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar 5% af iðgjaldatekjum hvers árs að jafnaði.
15. grein – Aðrir bótaflokkar – heimild
15.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka í formi líftrygginga, dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.
16. grein – Niðurfelling bótaréttar
16.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn undan greiðsluskyldu um stundarsakir. Sama á við um náttúruhamfarir. Sjóðstjórn getur einnig ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
17. grein – Umsókn um dagpeninga og styrki
17.1 Sá sem óskar greiðslu úr sjóðnum og uppfyllir skilyrði 8. greinar, skal leggja fram skriflega umsókn og tiltekin gögn samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar hverju sinni. Stjórn sjóðsins er heimilt að krefjast þess að umsækjandi um dagpeninga eða styrki leggi fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu sjóðsins.
18. grein – Fyrning bótaréttar
18.1 Greiðsla dagpeninga og styrkja fyrnist, sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að greiðslu atvinnurekanda lauk eða til kostnaðar var stofnað. Á þetta við um allar bótagreiðslur úr sjóðnum.
19. grein – Endurgreiðsla iðgjalda
19.1 Iðgjöld til sjúkrasjóðsins endurgreiðast ekki.
20. grein – Upplýsingaskylda
20.1 Upplýsingar skulu veittar í samræmi við almennar stjórnsýslureglur. Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til aðstoðar með t.d. útgáfu bæklinga eða dreifirita.
21. grein – Málsskotsréttur
21.1 Telji sjóðfélagi að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð hvað varðar umsókn til sjóðsins, sem fellur undir heimildarákvæði reglugerðar þessarar, er honum heimilt að vísa umsókn sinni til stjórnar félagsins. Úrskurður félagsstjórnar er bindandi fyrir stjórn sjúkrasjóðs og sjóðfélaga.
22. grein – Rekstrarkostnaður og tilhögun greiðslna úr sjóðnum
22.1 Allan beinan kostnað vegna reksturs sjóðsins greiðir hann sjálfur.
22.2 Árlegan kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofu skal ákveða með samkomulagi milli sjóðstjórnar og stjórnar félagsins ár hvert.
22.3 Umsóknum skal skilað í því formi, sem stjórn sjóðsins ákveður ásamt nauðsynlegum vottorðum er tryggja réttmæti greiðslna.
22.4 Umsækjandi skal, ef nauðsyn ber til að mati sjóðstjórnar, heimila trúnaðarlækni sjóðsins að sannreyna réttmæti framlagðra læknisvottorða.
22.5 Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá umsækjanda skal sjóðstjórn hafna umsókn að svo stöddu.
23. grein – Gerðabók
23.1 Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók yfir styrkbeiðnir og styrkveitingar.
24. grein – Breyting á fjárhæðum og styrkjum
24.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.
25. grein – Breytingar á reglugerð
25.1 Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda sé þess getið í fundarboði að reglugerðarbreytingar séu á dagskrá. Tillögur um breytingar á reglugerð sjóðsins skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins hálfum mánuði fyrir aðalfund félagsins.
25.2 Tillögum til reglugerðarbreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skilað til félagsstjórnar eigi síðar en við lok febrúarmánaðar ár hvert.
25.3 Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nægir til að reglugerðarbreyting teljist samþykkt.
25.4 Breytingar á reglugerðinni skulu sendar ASÍ þegar þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.
26. grein – Gildistími
26.1 Reglugerðin tekur gildi 8. júní 2016.
Reglugerð sjúkrasjóðs var endurskrifuð eftir aðalfund Þingiðnar 31. maí 2016. Þar var samþykkt að samræma reglugerðina við reglugerð/úthlutunarreglur Sjúkrasjóðs Framsýnar sem teknar voru fyrir og afgreiddar á aðalfundi Framsýnar 8. júní 2016.
Reglugerð fyrir Orlofssjóð Þingiðnar
1. grein -Nafn sjóðsins
Heiti sjóðsins er Orlofssjóður Þingiðnar og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.
2. grein – Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er að auðvelda félagsmönnum Þingiðnar að njóta orlofs, koma upp og reka orlofsheimili fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra og styrkja félagsmenn til orlofsdvalar og orlofsferða innan lands sem utan.
3. grein – Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins
b) Vaxtatekjur
c) Leigugjöld af orlofshúsum
d) Annað ófyrirséð
4. grein – Stjórn sjóðsins og hlutverk hennar
Stjórn sjóðsins skal skipuð félagsstjórn og er formaður félagsins sjálfkjörinn formaður stjórnar sjóðsins og varaformaður í forföllum hans. Stjórnin skal gera tillögur um hvernig fé sjóðsins skuli varið. Úthluta félagsmönnum orlofsdvöl í orlofshúsum félagsins og beita sér fyrir því að félagsmenn njóti orlofs síns t.d. með sameiginlegum ferðalögum, sem orlofssjóður kostaði eða tekur þátt í að greiða. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja orlofsferðir á vegum eldri félagsmanna eða Félags eldri borgara. Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa samvinnu við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum um úthlutun orlofshúsa og önnur þau mál er varða starfsemi orlofssjóða stéttarfélaganna.
5. grein – Greiðslur úr sjóðnum
Allar greiðslur úr sjóðnum aðrar en þær er varða daglegan rekstur hans, rekstrargjöld orlofshúsa, leigu orlofshúsa í eigu annarra og/eða til annarrar venjubundinnar starfsemi á vegum sjóðsins, skulu háðar samþykkt félagsstjórnar. Á þetta einkum við um greiðslur sem ekki hafa áður verið hluti af hefðbundinni starfsemi sjóðsins, eða ef upphæðir teljast umtalsverðar miðað við þá starfsemi sem er á vegum hans á hverjum tíma. Stjórn félagsins skal ákveða hver verði hlutfallsleg þátttaka sjóðsins í rekstrarkostnaði félagsins.
6. grein – Skoðunarmenn reikninga og endurskoðandi
Skoðunarmenn sjóðsins og endurskoðandi, skulu vera þeir sömu og hjá félagssjóði. Ársreikningur skal lagður fram áritaður af þeim.
7. grein – Ávöxtun sjóðsins
Stjórn sjóðsins annast vörslu hans og ávöxtun á öruggan hátt, svo sem í tryggum seljanlegum verðbréfum, þátttöku í tryggum sjóðum eða í bönkum og sparisjóðum. Heimilt er sjóðnum að eiga fasteignir undir starfsemi sína eða eiga í fasteignum, sem félagið á eða er meðeigandi í.
8. grein – Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins með samþykki 2/3 hluta atkvæða.
Þannig samþykkt á stofnfundi 17. desember 2000.
—————————————————————————————————–
Reglugerð fyrir Vinnudeilusjóð Þingiðnar
1. grein – Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður Þingiðnar og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.
2. grein – Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er:
a) Að veita fjárhagslega aðstoð þeim félagsmönnum, sem missa atvinnutekjur vegna langvarandi verkfalla eða verkbanna.
b) Að greiða beinan kostnað félagsins vegna vinnudeilna.
c) Að styrkja önnur stéttarfélög, sem eiga í langvarandi vinnudeilum og þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.
3. grein – Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) 10% af innheimtum félags- og vinnuréttindagjöldum.
b) Viðbótarframlag félagssjóðs eftir því sem aðalfundur hverju sinni kann að ákvarða.
c) Vaxtatekjur.
d) Frjáls framlög félagsmanna og annarra.
4. grein – Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð félagsstjórn og er formaður félagsins sjálfkjörinn formaður stjórnar sjóðsins og varaformaður í forföllum hans.
5. grein – Styrkveitingar
Stjórnin ákveður styrkveitingar úr sjóðnum. Styrki samkvæmt c-lið 2. greinar má þó því aðeins greiða út, að einnig liggi fyrir samþykki félagsstjórnar. Stjórnin skal halda gerðabók yfir fundi sína, styrkbeiðnir og styrkveitingar. Stjórnin úrskurðar einnig um aðrar greiðslur úr sjóðnum. Um útborganir fer eftir fyrirmælum sjóðsstjórnar.
6. grein – Réttur til styrkveitingar
Eigi má veita félagsmanni styrk úr sjóðnum nema hann hafi verið fullgildur félagsmaður áður en viðkomandi vinnudeila hófst og sé skuldlaus við félagið.
7. grein – Ágreiningur um úthlutun
Verði ágreiningur um úthlutun úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð.
8. grein – Skoðunarmenn reikninga og endurskoðandi
Skoðunarmenn sjóðsins og endurskoðandi, skulu vera þeir sömu og hjá félagssjóði. Ársreikningur skal lagður fram áritaður af þeim.
9. grein – Ávöxtun sjóðsins
Stjórn sjóðsins annast vörslu hans og ávöxtun á öruggan hátt, svo sem í tryggum seljanlegum verðbréfum, þátttöku í tryggum sjóðum eða í bönkum og sparisjóðum. Heimilt er sjóðnum að eiga fasteignir undir starfsemi sína eða eiga í fasteignum, sem félagið á eða er meðeigandi í.
10. grein – Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins með samþykki 2/3 hluta atkvæða.
Þannig samþykkt á stofnfundi 17. desember 2000.
—————————————————————————————————–
Reglugerð
fyrir Fræðslusjóð Þingiðnar
1. grein: Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.
2. grein: Tilgangur
Tilgangur sjóðsins er alhliða fræðslustarfsemi með sérstaka áherslu á styrki til félagsmanna sem stunda nám í greininni eða sækja starfstengd námskeið. Þá skal heimilt að verja ákveðnum fjármunum til tómstundastyrkja í samræmi við starfsreglur sem sjóðurinn settur sér og samþykktar eru á aðalfundi félagsins.
3. grein: Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin iðgjöld atvinnurekenda á hverjum tíma.
b) 0,3% af innheimtum félagsgjöldum. Viðmiðunargjald 1% félagsgjald.
c) Viðbótarframlög frá félagssjóði, sem ákveðin eru hverju sinni.
d) Vaxtatekjur.
e) Námskeiðsgjöld.
f) Aðrar tekjur.
4. grein: Stjórn sjóðsins
Þrír félagsmenn skipa stjórn sjóðsins, og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Kosnir skulu tveir varamenn á sama hátt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skal heimilt að tilnefna starfsmenn félagsins í stjórn sjóðsins enda liggi fyrir samþykki aðalfundar þess efnis. Formaður félagsins kallar stjórnina saman til fyrsta fundar.
5. grein: Verksvið stjórnar
Verksmið stjórnar er að úthluta styrkjum til félagsmanna í samræmi við starfsreglur sjóðsins. Þá er stjórninni heimilt að skipuleggja námskeið eða aðra fræðslu sem gagnast getur félagsmönnum á hverjum tíma. Reiknað er með að úthlutun úr sjóðnum fari fram einu sinni í mánuði.
6. grein: Ágreiningur
Verði ágreiningur um fjárveitingar úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð. Það sama á við um ef félagsmaður er ósáttur við afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Í þeim tilvikum getur hann vísað málinu til félagsstjórnar til afgreiðslu.
7. grein: Ávöxtun sjóðsins
Laust fé fræðslusjóðs skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar félagsstjórnar og er félagssjóður þá ábyrgur fyrir endurgreiðslu, þegar fræðslusjóður þarf á fé sínu að halda.
Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins.
8. grein: Breytingar á reglugerð
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar atkvæða séu þeim fylgjandi.
Þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar 16. maí 2018.
—————————————————————————————————–
Starfsreglur
Fræðslusjóðs Þingiðnar
1. Félagsmaður sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 24 og greitt til félagsins á þeim tíma á rétt á stuðningi til starfsnáms. Greitt er hlutfallslega fyrir fólk í hlutastörfum.
2. Við ákvörðun upphæðar er miðað við greidd félagsgjöld síðustu 12 mánaða. Félagsgjald af lágmarkslaunum iðnaðarmanna í 100% starfi eða meira gefur fulla styrkupphæð.
3. Fylla þarf út umsóknareyðublað og skila ásamt reikningi/kvittun til skrifstofu félagsins. Umsókn þarf að berast viðkomandi stéttarfélagi innan 12 mánaða frá dagsetningu reiknings.
4. Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingagjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til starfsmenntunarstyrks sem hann hafði áunnið sér hjá sjóðnum. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.
5. Foreldrar í fæðingar- eða foreldraorlofi geta nýtt sér áunnin rétt skv. 1. gr. ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld á meðan á orlofi stendur.
6. Félagsmenn í atvinnuleit halda áunnum rétti sínum eins og hann var við starfslok ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld af atvinnuleysisbótum.
Hve mikið er greitt ?
Greitt er að hámarki kr. 100.000.- á ári m.v. 1. júní 2018. Miða skal við almanaksárið. Aldrei er þó greitt meira en sem nemur 75% af námskostnaði.
Frístunda/tómstundanámskeið
Fræðslusjóðurinn veitir styrki vegna tómstundanámskeiða ýmiskonar og er endurgreiðsla vegna þeirra 75% af kostnaði en aldrei hærri en kr. 30.000.- á ári og dregst jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks þess árs.
Uppsafnaður réttur; aukinn styrkur til náms
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjá ár, eiga rétt á styrk allt að kr. 300.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið skv. reglum sjóðsins. Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 100.000.- sem hluti af kostnaði náms/námskeiðs í þessu tilviki.
Styrkir til kaupa á hjálpartækjum fyrir lestrar-og ritstuðning.
Hægt er að sækja um allt að 75% styrk vegna kaupa á hjálpartækjum ætluðum til stuðnings við lestur og skrift. Heildarstyrkur miðast við hámarksupphæð skv. almennum reglum sjóðsins eða kr. 100.000.-
Styrkir vegna íslenskunáms
Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 75% styrk vegna íslenskunáms eftir mánaðar félagsaðild að Þingiðn.
Réttur ellilífeyrisþega
Ellilífeyrisþegar innan Þingiðnar halda rétti sínum til einstaklingsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hætta að vinna. Þetta er í samhengi við réttindi þeirra sem eru á tímabundinni örorku og annað sbr. 4. lið í starfsreglunum.
Breyting á starfsreglum
Reglur þessar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni.
Þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar 16. maí 2018.