Vinna að nýjum langtímasamningi SA og SGS hafin
Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær á fyrsta fundi til undirbúnings langtímakjarasamnings. Viðræðurnar eru í samræmi við verkáætlun sem fylgdi framlengingu Lífskjarasamningsins til 31. janúar 2024 þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið í kröfugerð aðila var frestað. Í samræmi við verkáætlun var á þessum fyrsta fundi fjallað um menntun, fræðslu og fagbréf, vinna hópsins skipulögð og umfang verkefnisins metin. Gengið var frá fundaáætlun sem miðast við það að verkefni vinnuhópanna verði lokið í samræmi við þá tímasetningu sem kemur fram í verkáætlun. Fundað verður nokkuð stíft næstu vikurnar. Góður gangur var í viðræðunum í gær.
Á meðfylgjandi mynd eru Maj-Britt Hjördís Briem og Sólveig B. Gunnarsdóttir, lögfræðingar á vinnumarkaðssviði SA ásamt fulltrúum SGS, þeim Aðalsteini Árna, Björgu, Guðbjörgu og Finnboga Sveinbjörnssyni.