Félagsmenn sem missa atvinnu sína geta leitað til Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og fengið þar allar upplýsingar um atvinnuhorfur á vinnumarkaði og laus störf. Ef ekkert starf er laust fylla þeir út umsókn um atvinnu og umsókn um atvinnuleysisbætur. Meðan atvinnuleysi varir skráir viðkomandi sig vikulega, nema samningur hafi verið gerður um annað við Vinnumálastofnun. Um markmið og hlutverk Vinnumálastofnunar er kveðið á um í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra er á Skipagötu 14 Akureyri sími 460-5100. Skráningarstaðir eru á skrifstofum Skútustaðahrepps, sími 464-4163, og Langanesbyggð, sími 468-1220.

Þjónusta við atvinnuleitendur
Vinnumálastofnun þjónustar atvinnuleitendur með ýmsu móti og hafa atvinnuleitendur á svæðinu aðgang að atvinnuleitarfulltrúa og starfs- og námsráðgjöfum. Þótt þeir séu staðsettir að mestu á Akureyri er hægt að fá viðtöl við þá á öllum skráningarstöðunum.

Almenn vinnumiðlun
Starfsmenn vinnumiðlunar hafa upplýsingar um laus störf og miðla þeim til atvinnuleitenda auk þess sem þeir þjónusta fyrirtæki í leit af starfsmönnum.

EES – vinnumiðlun
Þeir sem eru í atvinnuleit utan Íslands geta fengið upplýsingar um laus störf á EES svæðinu. Einnig skrá þeir atvinnuleitendur í atvinnuleit á EES svæðinu ef þeir óska. Vinnumálastofnun býr einnig yfir upplýsingum um lög og reglur sem gilda á vinnumarkaði á EES svæðinu.

Ráðgjöf um starf og nám
Hjá Vinnumálastofnun starfa ráðgjafar sem veita starfs- og námsráðgjöf auk þess sem þeir kynna úrræði fyrir atvinnulausa sem geta verið námskeið, líkamsrækt, sund, starfsþjálfun, starfskynning, átaksverkefni og reynsluráðning. Vinnumálastofnun styrkir fólk á atvinnuleysisbótum til að sækja námskeið, sem til þess eru fallin að auka atvinnulíkur þeirra.

Kjósi atvinnuleitandi að fara í atvinnuleit á annað svæði eða erlendis, getur hann sótt um leyfi til slíks til Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysisbætur
Félagsmaður sem skráir sig atvinnulausan á rétt á atvinnuleysisbótum.

Almennt fer réttur til atvinnuleysisbóta eftir starfi s.l. 12 mánuði og eru atvinnuleysisbætur greiddar í hlutfalli við starfshlutfall á þeim tíma. Þegar félagsmaður hefur ekki verið á vinnumarkaði um stundarsakir s.s. vegna heimilisaðstæðna, veikinda og fæðingarorlofs er heimilt að lengja viðmiðunartímabil og skilar hann þá upplýsingum um starf s.l. 12 mánuði sem hann var í starfi en að hámarki 36 mánuði aftur í tímann. Nánari upplýsingar um má finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Þeir sem telja sig ekki fá úrskurðaðar réttar atvinnuleysisbætur geta skotið máli sínu til Úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta. Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík (kuti@framsyn.is) aðstoðar þá félagsmenn sem telja sig ekki fá réttar atvinnuleysisbætur.

Munið að forsenda fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta er að skrá sig í atvinnuleit og atvinnuleysisbætur greiðast frá fyrsta skráningardegi. Því er rétt að hvetja þá sem verða atvinnulausir til að skrá sig á fyrsta degi atvinnuleysis.

Deila á