Réttindi hjá Sjúkrasjóði Framsýnar
Sjóðsfélagar Sjúkrasjóðs Framsýnar, stéttarfélags njóta fjölbreyttra réttinda hjá sjúkrasjóðnum í samræmi við reglugerð hans. Réttindi í sjóðnum miðast við greitt félagsgjald til sjóðsins hverju sinni og aðild umsækjanda að félagin. Nánar er fjallað um réttindin í reglugerð sjúkrasjóðs félagsins sem er samþykkt er á aðalfundi félagsins hverju sinni.
Sótt er um greiðslur á sérstökum eyðublöðum sem hægt er að fá hér eða hjá Skrifstofu stéttarfélaganna.
Helstu réttindi eru:
Almennar reglur um endurgreiðslur
Almennt fer upphæð styrkja eftir iðgjaldi til sjóðsins s.l. 12 mánuði, þó er heimilt að miða við greitt iðgjald eftir sex mánuði í þeim tilvikum sem félagsmenn hafa ekki greitt til félagsins í 12 mánuði. Viðmiðunargjaldið tekur mið af breytingum á lágmarkslaunum á hverjum tíma.
Fullgildir félagsmenn sem ekki eru lengur á vinnumarkaði svo sem elli- örorkulífeyrisþegar skulu halda þeim rétti sem þeir höfðu við starfslok úr sjóðnum fyrir utan niðurgreiðslur vegna tækjakaupa. Sá réttur fellur niður eftir fimm ár frá því að viðkomandi aðili greiddi síðast til félagsins. Varðandi rétt elli- örorkulífeyrisþega sem hætta á vinnumarkaði þá miðast réttur þeirra við greitt félagsgjald þegar þeir láta af störfum vegna aldurs eða örorku.
Forsendan fyrir greiðslu úr sjúkrasjóði er varðar almenna styrki er að félagsmenn skili inn frumriti af dagsettri kvittun þar sem fram kemur nafn og kennitala seljanda og kaupanda og upphæðin sem greidd var.
Greiðslur úr sjúkrasjóði eru greiddar einu sinni í mánuði, það er við mánaðamót. Skila þarf inn umsóknum um sjúkradagpeninga og aðrar greiðslur úr sjóðnum fyrir 26 hvers mánaðar.
Vegna erlendra kvittanna fyrir kostnaði
Starfsreglur þessar eiga við um þá félagsmenn sem framvísa erlendum kvittunum fyrir kostnaði sem falla undir endurgreiðslur úr sjúkrasjóði Framsýnar.
Vegna umsóknar um styrk úr sjúkrasjóði þarf að leggja fram frumrit reiknings á upprunalegu tungumáli og á ensku eða íslensku. Kostnaðarskipting skal sundurliðuð á reikningi. Ef frumrit reiknings er gefið út á ensku nægir það. Einnig þarf að fylgja með bankakvittun úr íslenskum banka sem staðfestir greiðslu í íslenskum krónum. Brýnt er að allur texti sé skýr og skilmerkilegur. Sé þýðing ekki fyrir hendi fæst ekki greiddur styrkur úr sjúkrasjóði.
Málskot
Telji sjóðfélagi að umsókn hans hafi ekki hlotið afgreiðslu í samræmi við reglugerð sjóðsins er honum heimilt að vísa ágreiningi til félagsstjórnar. Úrskurðir félagsstjórnar eru bindandi fyrir stjórn sjúkrasjóðs og sjóðfélaga.
Samskipti sjúkrasjóða innan ASÍ
Félagsmaður Framsýnar sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði annars stéttarfélags innan ASÍ, öðlast rétt til sjúkra- og slysadagpeninga hjá sjúkrasjóðnum eftir að hafa greitt í hann í einn mánuð, enda hafi hann fram að því sannanlega átt rétt hjá fyrri sjóðnum.
Flutningur réttinda milli ASÍ og BSRB stéttarfélaga
Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu dagpeninga og dánarbóta úr sjúkrasjóði eins aðildarfélags ASÍ eða BSRB, öðlast þann rétt hjá nýju aðildarfélagi skv. þeim reglum sem þar gilda eftir einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrra félaginu. Þegar sótt er um dagpeninga eða dánarbætur í sjúkrasjóði nýs aðildarfélags ASÍ skal umsækjandi leggja fram yfirlit um greidda dagpeninga og dánarbætur sem hann hefur þegið úr fyrra sjúkrasjóði sl. 12 mánuði.
Önnur réttindi
Allar nánari upplýsingar um réttindi félagsmanna í veikindum og slysum eru veittar á Skrifstofu stéttarfélaganna sími 464-6600.